fredag 18 juni 2010

Í dag lærði ég....

... fyrst og fremst að það er betra að hrista drykkjarjógúrtina sína áður en maður opnar hana, en ekki á eftir. Átti stórleik í hádeginu í vinnunni.

Svo lærði ég að afhorna kálfa, eða þeas rifjaði það upp. Lærði það víst í skúúle. A long long time ago.

Í gær "endurlærði" ég líka að gelda kálfa, gaman gaman :)

Í dag lærði ég á röntgen tækið í vinnunni, digital og fancy. Gaman að því líka. Svo sá ég feitasta schäfer sem ég hef á ævi minni séð, hann var tæp 60 kg! 8 ára og með liðavandamál. Skrítt.

Svo var ég dugleg og bjó til hematom á litlum hundi í staðinn fyrir að taka úr honum blóð. Eigandinn var rosa töffari, tattúeraður með sítt skegg og risa ljóta eyrnalokka - svona plötur sem eru inní eyrnasneplinum. Svaka gaur og með staffordshire bullterrier, en þurfti að setjast útí horn þegar ég fór að tala um blóðprufu til að hrynja ekki í gólfið. Sætastur :) Einmitt gaman að þurfa að brasa við að stinga í tvær æðar þegar eigandinn var hálfmeðvitundarlaus við hliðina..! En tókst allt að lokum og allir fóru heim glaðir og við meðvitund :P

Var að panta mér flug heim til Ak áðan. Þvílíkt og annað eins vesen. Það er víst ekki hægt að neita því lengur að þetta er bölvað bévítans krummaskuð sem ég bý í. Það er ekki einu sinni lest hingað! Og ekki flogið á laugardögum eins og ég ætlaði mér. Og eitt einasta flug á sunnudögum. Svo planið lítur svona út: Övik - stokkh. fös 2. júlí (þarf að fara fyrr úr vinnunni því seinasta flug er 17.20. Flug frá stokkh. til köben á fös.kvöldi. Flug frá Köben til Ak á laugardegi. Heimferð: Flug Ak-Rvk á laugard. 17. júlí. Morgunflug frá Rvk - Stokkh. á sunnudegi. Lending 12.45. Spretthlaup (aftur!! -tækifæri til að bæta mitt persónulega met!) í flugið til Övik sem fer kl 14.00. EINS GOTT að Icelandair haldi áætlun. Líkur? Litlar.

Veit ekki hvað þetta eru mörg flug (og margir peningar!!!) en finnst þau virka mörg. Ætla ekkert að vera að telja. Er reyndar pínu hrædd um að ég hafi gleymt einhverju fluginu og strandi á leiðinni. Það væri týpískt!

Namm namm. Er að borða Abba fiskibollur úr dós. Hitaðar í örbylgjuofni. Svíþjóð er vinur minn : )

Fólkið hérna er skrítið. Það er á svo hægri stillingu. Ég skil þetta bara ekki. Allir tala svo hægt og svo lágt, ég heyri aldrei neitt og skil ekki hvernig fólk getur talað saman. Týpískt samtal hjá mér og Emmu (sem ég fer með í sveitina) er svona:
Ég: "En hvernig er þetta aftur með *eitthvað*, hvernig gerir maður það?
...þögn...
...þögn... (eftir 2 sek hugsa ég: ok. Hún heyrði ekki í mér. Eða heyrði hún í mér? Hm.)
...þögn... (eftir 5 sek hugsa ég: Nei. Hún heyrði ekki. Verð að spyrja aftur.)
...þögn...(eftir 7 sek hugsa ég: En hvað ef hún heyrði. Þá er fáránlegt að spyrja aftur.)
...þögn...(eftir 9 sek: En kannski er hún bara að hugsa. Já.)
...þögn... (eftir 10 sek: Hún heyrði ekki. Verð að spyrja aftur)
-opna munninn til að spyrja - og þá kemur svarið oftast. Vá! Þá er ég búin að ná að hugsa hálfa skáldsögu og 10 spurningar í viðbót!

Þetta er ekki alveg minn stíll. Og heldur ekki að tala svona rosalega lágt eins og fólk gerir. Veit ekki hvort það er af því að ég er vön að vinna með gömlu mis-heyrnarskerrtu fólki, en ég stend mig að því aftur og aftur að standa nánast á öskri þegar ég tala við ókunnugt fólk. Bændurnir hérna halda örugglega að ég sé alvarlega skrítin. Lítil og barnaleg, stend hálf falin á bakvið Emmu (hún er soldið stór á suma kanta) og ef þeir yrða á mig þá skil ég sjaldnast hvað þeir segja (tala lágt og trikkí mállýska) og segi (garga?) "hvað sagðiru" x3 og svara svo einhverju aulalegu.
Svo er Emma alltaf frekar stressuð (mikið að gera og vantar dýralækna) og ræðir það oft við bændurna. Þeir stinga uppá að fá einhvern í sumarafleysingar og þá berst athyglin aftur til mín þegar Emma bendir á mig (hálf uppgefin á svip) og segir: Joo.. det här är våran nya sommarvikarie. Og ég vinka eins og auli, bóndinn horfir furðulega á mig. Jahaa.
Þetta eru skemmtileg móment!

En það þýðir ekki að gefast upp. Er kannski auli núna, en það verður þá bara að vinna í því. Lofa að ég verð ekki auli í lok sumars!! :P

Ég hlakka bara til að vita hvort ég verð orðin svona hæg þegar ég kem tilbaka. Tala hægt og lágt. Veitiggi.

Jæja. Er þetta ekki að verða ágætt í kvöld. Ætla að skella mér í heimsókn til Isabelle á morgun. Hún býr í Sollefteå og vinnur þar, rúm klst með rútu. Ætla að vera hjá henni yfir helgina, verður gaman að hitta hana! Að vísu langar mig pínu að sofa bara alla helgina, slappa af og lesa smá í bókunum mínum.. en það verður þá bara næstu helgi. Get alltaf einhverfast seinna :P

Já af því að ég er nebbla ekki að einhverfast núna. Ein að blogga á föstudagskvöldi, étandi fiskibollur úr dós og að ærast úr vuvuzela hávaða. Sjáum til hvort mér tekst að toppa þetta næstu helgi :)

L8er.

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar