Jæja hvern hefði grunað þetta...? Ég hef snúið aftur á sænska jörð - það hlaut að vera að ég hefði hlotið einhvern varanlegan skaða af þessum 7 árum sem barn í svíaríki. Er semsagt mætt aftur til Sverige.. og ég fílaða! Össsss....
Er stödd í hinu sænska rassgati, Örnsköldsvik. Hér ætla ég að eyða 10 vikum af sumrinu mínu og reyna að þykjast vera dýralæknir! Ákvað að það yrði auðveldara að plata vitlausa sveita-svía heldur en köben-búana. Mun starfa við sumarafleysingar á blandaðri stofu, aðallega gæludýr samt, en inná milli hestar og kýr.
Í tilefni þessa ákvað ég að endurlífga bloggið mitt, en í nýrri og hressari útgáfu, svona fyrir þá sem vilja fylgjast með ævintýrum mínum. Og þau eru þegar hafin og þið hafið misst af ca 7. Too bad.
Fyrir þá sem ekki vita er Örnsköldsvik lítill hafnarbær í n-svíþjóð, nánar tiltekið 1179 km frá Kóngsins Köben. Jebb Jebb. Kom hingað í gær.. vá.. í gær? Líður eins og það sé vika síðan. Lenti í ýmsu brasi á leiðinni, m.a. var flugið mitt milli stokkhólms og övik (eins og lokalbúar kalla pleisið - mér finnst það tzöff) fellt niður og ég umbókuð í flug sem var tímasett akkúrat klst eftir lendingu í stokkhólmi. Og það var ekki hægt að tékka farangurinn inn alla leið. Í stuttu máli þá setti ég nýtt heimsmet í flugvallarspretthlaupi með 34 kg af farangri (tíminn var 12 mín. og aðeins einn felldur samfarþegi) á milli farangursbands og terminal 4 og komst sveitt og sæl um borð í vélina. Sá stórlega eftir þessu mikla spretthlaupi þegar vélin tókst á loft, því þá óskaði ég þess að ég hefði aldrei komist um borð! Þvílík flugvél... gömul og samanteipuð (ok sá það ekki, en er viss um það samt!) og pústaði og puðaði og ég beið eftir því alla leiðina að hún myndi gefast upp (nema þegar ég fékk kókosbollu, þá gleymdi ég mér í smástund). En sveimér þá. Það hafðist og ég lenti in the middle of nowhere. Var sem betur fer sótt af dýralækninum - eða já, það má deila um "sem betur fer" - henni tókst að villast á þessum 20 km sem áttu að vera á milli vallarins og övik... og eftir svona 40 mín bílferð ákvað ég nú að spyrja hvort við værum ekki að verða komnar.. "Va? Men?? HERREGUUUUD!! VAR ÄR VI NÅNSTANS??" Jebb jebb. Kom í ljós að hún hafði misst af einni beygju, og við vorum komnar 65 km frá övik. Þetta var laaangur dagur.
En hún var fyndin. Það er að segja óvart fyndin. Sennilega með þeim leiðinlegustu manneskjum sem ég hef hitt, en táraðist af innbyrgðum hlátri þegar hún fór að segja mér frá brúðkaupinu sem hún ætlaði í á laugardaginn. Jahaa sagði ég, en gaman. Jamm sagði hún.. að vísu var hún ekki beint að fara í brúðkaupið, en sko.. þetta var sko brúðkaupið hennar Viktoríu (prinsessan jú nó) og það átti að sýna það í sjónvó allan heila laugardaginn, sagði hún einstaklega ánægð. Þá hló ég pínu inní mér. En tárin.. ó tárin komu fyrst þegar hún fór að útskýra þetta nánar - hún ætlaði í klippingu, klæða sig upp og sitja fyrir framan sjónvarpið með kaffi og fika (bakkelsi) sem hún ætlaði að raða á rosa fínan bakka sem henni hafði verið gefinn - með gylltri rönd og þremur gylltum kórónum. Ó nei. Ó nei. Ó nei. Välkommen till Sverige! Óborganlegt! Strax á þessari stundi vissi ég að ferðin hingað hefði borgað sig, þó ekki væri nema fyrir þetta eina móment!
Jæja, nóg um það. Kemst samt ekki yfir þetta. En.. Klinikin já. Mér líst mjög vel á þetta, fannst ég að vísu voða vitlaus og ekki kunna neitt í dag, en það var nú bara eins og forventet. Líst vel á vinnufélagana og umhverfið og held barasta að ég eigi alveg eftir að fíla mig þarna. Af helstu afrekum dagsins má nefna að við aflífuðum risavaxinn ránfugl! Hef aldrei verið svona nálægt svona stórum fugli, lappirnar á honum voru álíka þykkar og framfætur á meðalstórum hundi. Og klærnar maður.. sjææææse! Þetta var að mig minnir tegund sem heitir berguv, og þetta var ræktunardýr sem var búið að skila sínu. Vá. Ólýsanlega mikilfenglegt og fallegt dýr og synd að þurfa að aflífa það. Svo aflífaði ég kött með eigandann til staðar, hef ekki gert það áður. Það gekk allt saman vel og engir skandalar. Já og svo tók ég blóð úr smáhundi og hitti í fyrsta - maður verður að gleðjast yfir litlu sigrunum.. haha! Annars var ég mest að fylgjast með, læra á tölvukerfið og ekkert nema augun og eyrun, enda soldið þreytt núna.
Held ég fari að segja þetta ágætt af ævintýrum mínum enn sem komið er. Hellings meira sem mig langar að skrifa, en held það komist varla fyrir á netinu það er svo mikið ;) Geymi það kannski aðeins. Jú eitt. Ég hafði nú töluverðar áhyggjur af því hvað ég er lítil og barnaleg og hvernig fólk ætti að taka mig alvarlega sem dýralækni. Þær áhyggjur fengu stórfelldan stuðning í dag hjá strætóbílstjóra nokkrum sem spurði hvort ég ætlaði að fá barnamiða. Hlæja eða gráta?!?! Veistu ég bara veit það ekki. Veðjaði á hlæja, en veitiggi hvort það var rétt.
Anyways. Segi þetta gott í bili!
Kveðja út-rassgats-víkingurinn :)
Frábært að sjá smá blogg :D Við ætlum að halda Hamstrinum á lífi líka í sumar!
SvaraRaderaVá vissi ekki að Svíar væru svona "spes", hélt að danir væru einu með royal-fetish...