onsdag 30 juni 2010

Erfiður dagur

Já í dag var svo sannarlega vonlaus dagur. Var sybbin og allt var erfitt og það fór svo margt úrskeiðis að ég held það tæki mig alla nóttina að segja frá því. Dagurinn byrjaði á því að ég gramsaði fram húsaleigureikninginn minn sem átti að borgast í síðasta lagi í dag - bara til að gera þá frábæru uppgötvun að þetta var ekki einn heldur tveir reikningar - og sá fyrri átti að borgast seinast 13. júní. Það var að vísu áður en ég kom hingað, en hann stóð samt í mínu nafni og var þá fyrir restina af júní. Þessi sem átti að borgast í dag var fyrir júlí en ekki júní eins og ég hélt. Semsagt tveir reikningar, samtals 5700 sænskar. Og launaávísunin í Köben. Verrara.
Var svo í endalausu stressi í vinnunni og losnaði ekki fyrren 12.30 til að reyna að komast í bankann, með næsta sjúkling bókaðan 13.10. Komst í bankann, en þá gátu bankastúlkurnar að sjálfsögðu ekki tekið dankortið mitt. Þær reyndu - og ég þurfti að sýna passa til að fá að reyna að borga reikninginn minn (!) en ég var svo snjöll að grípa hann með í morgun í þessu landi þar sem ekki má prumpa án þess að sýna passa. Eitt stig fyrir mig. Því miður var það eina stig dagsins.
Þær bentu mér að fara í hraðbanka og taka út. Ég reyndi það, en fékk ekki krónu útúr hel***** maskínunni. Fór aftur inn og tilkynnti þetta. "jaaá.. hraðbankinn okkar er soldið skrítinn stundum, prófaðu bara einhvern annan" Þá var kl alveg að verða 13 og ég farin að svitna. Hljóp í næsta hraðbanka, þar voru 5 manns á undan mér. Hringdi í Ívar og öskraði yfir þessum aðstæðum, sennilega með reyk útúr eyrunum, og skyndilega var fólkið horfið. Reyndi við hraðbankann... jú hann vildi gefa mér peninga, en ekki nema 2500 sem vildi svo skemmtilega til að að var hámarksupphæð. Ég fór í fýlu og reyndi x 3 í viðbót.. á meðan röðin á bakvið mig lengdist í ca 10 manns. Og svo bilaði hraðbankinn. Haha. Greyið gafst bara upp og tilkynnti tekniskt problem. Oj vilket problem.
Þá var kl orðin 13.10 og ég varð að fara uppá spítala að taka á móti fúlum eiganda sem hafði þurft að bíða. Með 2500 í veskinu. Í 100-seðlum. Takk hraðbanki, takk.
Svo var fúll eigandi, sorgmæddur eigandi, eigandi sem bókaði ekki tíma heldur mætti bara og ég þurfti samt að sinna, ásamt svaka drama í kringum æðalegg sem brotnaði inní æð á ketti (ég gerði það samt ekki!!). Þvílíkur dagur.
Átti gott móment þegar eigandi kom að ná í köttinn sinn eftir geldingu. Hann sagði að kötturinn héti Fredrik (hélt ég) og ég hljóp um allan spítala að leita að kettinum Fredrik. Fann hann ekki og var orðin frekar örvæntingarfull þegar ég fór að spyrja hitt starfsfólkið útí köttinn Fredrik. Allir horfðu á mig eins og spurningamerki og enginn vissi neitt. Þangað til það fattaðist að eigandinn hét Fredrik en ekki kötturinn. Hjúkket - ég sem hélt við hefðum týnt Fredrik, hefði ekki komið mér á óvart miðað við daginn.

Hehe.. Enski strákurinn var fyndinn í dag. Hann hélt ég væri hjúkka en ekki dýralæknir (arg!!). Hann er svona voðalega enskur eitthvað, svona mr. perfect, og svo var ég eitthvað að undirbúa fyrir blóðprufu þegar hann kemur til mín og spyr hvort hjúkkur í svíþjóð megi taka blóð. "Uhh.. veitiggi alveg" sagði ég. Hann horfði eitthvað skrítilega á mig og fór svo eitthvað að tala um eitthvað sem mætti ekki í englandi. Neihei.. sagði ég, ekki alveg að hlusta, og hélt áfram að græja. Hann hélt svo eitthvað áfram að tuða um ensku reglurnar og ég skildi ekki alveg hvað hann ætti við, skildi hann fyrst þannig að hjúkkurnar tækju alltaf blóð í englandi og að hann væri hissa á því að ég væri að gera það. Svo fattaði ég að hann var að ruglast og hélt ÉG væri hjúkka að fara að taka blóð. Hann fattaði það greinlega á sama tíma að hann væri kannski að misskilja eitthvað, en í staðinn fyrir að segja það bara þá varð hann gríðarlega vandræðalegur og muldraði eitthvað um hjúkkur og dýralækna á meðan hann reyndi í mesta ofboði að lesa á pínkulitla nafnskiltið framan á mér.. hahaha.. það var yndislegt að fylgjast með þessu hjá aumingja perfect guy, hihi ;) Á endanum varð hann að aula því útúr sér hvort ég væri dýralæknir. Jesssör - þarna sér maður hvað ég er sannfærandi!! Hmm...

En að öðru. Ég tók nokkrar myndir í vinnunni áðan. Bara að vara við áður en ég set þær hérna inn, það er soldið mikið af rusli! Það fer alveg í mínar fínustu að það skuli vera svona erfitt að ganga frá eftir sig..! Eins og ég er nú mikill ruslari og draslari heima hjá mér, þá vil ég að vinnustaðurinn sé í lagi! Það á að vera hreint og fínt og hlutirnir á sínum stað! Hér koma myndir:

Skrifstofan. Hvernig er t.d. hægt að vinna við þetta skrifborð? Ég veitiggi...


Eða hérna.. mí dónt læk.


Hér er biðstofan, voða krúttileg :)


Eitt af fjórum skoðunarherbergjum


Gangurinn, skoðunarherbergi til beggja handa


Röntgenherbergið, digital og fínerí :) Og ég kann á það. Alveg satt!


Skurðstofan þar sem minni aðgerðir fara fram, herbergið fyrir innan er fyrir stærri aðgerðir


Og að lokum - mikilvægasti staðurinn sem ég sé alltof sjaldan þessa dagana - kaffistofan! :D

Jæja, best að fara að hætta þessu, hringja í kallinn og fara að sjófa :)

L8er.

PS. Komst að því í dag að ICA er ekki alltaf ástin í lífi mínu... ekki þegar ég þarf að versla og er dauðþreytt eftir laaangan og vonlausan dag, vantar müsli og það eru 30 tegundir fyrir framan mig. Ég veit ekki hvað ég stóð lengi fyrir framan hilluna, en það var sem betur fer ennþá miðvikudagur þegar ég komst loksins út með eitthvað skrambans müsli. Og það er pottþétt vont. Kemur update á mrg ;)

tisdag 29 juni 2010

Kúlulaus geimvera



Afrek dagsins: gelding á geimveru. Eða nánar tiltekið þessu fyrirbæri:



Þvílíkur köttur! Loksins loksins loksins fékk ég að koma við Sphynx-kött! Eins og mig hefur dreymt um það í mörg ár! Og fékk að skera í hann í þokkabót ;) Að vísu var pínu svekkelsi að klappa honum, verð eiginlega að viðurkenna að það var ekkert rosalega lekkert.. hann var heitur og þvalur og soldið gúmmíkendur. Og ég var smá þvöl á höndunum líka svo við eiginlega hálf límdumst saman. Jammí. En samt, finnst þetta svo fyndin dýr. Þetta var nú eitt af kvikindunum sem ég grátbað mömmu og pabba um sem krakki.. "en mamma, nú veit ég - HÁRLAUS köttur! Svo sniðugt.. engin hár og þ.a.l. engin möguleg ofnæmisvandamál (hélt ég)"
"nei elsa mín, það er líka hægt að fá ofnæmi fyrir hárlausum köttum"
"ó... -en má ég fá frosk?
-og svona hélt þetta víst áfram í ansi mörg ár.. fann líka kattategund sem er næstum því jafn ljót, cornish rex (þessir með krullurnar), sem átti að vera einstaklega hentug fyrir ofnæmisfólk. En nei. Allt kom fyrir ekki. Ekkert dýr inná heimilið.
En semsagt, loksins fékk ég að koma við svona dýr. *gaaaman*

Af öðrum afrekum dagsins má nefna að ég klippti gat á kött. Kafloðið grey, allt í flækju og ég var einum of effektiv á skærunum. Úbbsí :/ Þurfti að sauma 2 spor. Stórt klapp fyrir mér. *klapp* En nú veit ég allavega hvað ég á að gera til að fá að æfa mig að sauma. Ehee..
Nei svona í alvöru, þetta var ekki sniðugt, en kallgreyið sem átti köttinn tók þessu sem betur fer vel. Þetta er nú eitthvað sem getur alltaf gerst (og flestir á staðnum höfðu lent í) en bara leiðinlegt þegar maður er nýr.

Hm. Af hverju finnst mér eins og allar aulasögurnar mínar endi hérna - en engin afrekasaga?! Verð að muna að skrifa amk eina sögu sem endaði vel fyrir hver 10 aulamistök ;) T.d. í dag, þá bólusetti ég hvolp. Það gekk vel.

Mmm núna er ég í alvörunni að borða góðan kvöldmat :) "Jibbíkleina" eins og hún Sif segir. Chili con carne og hrísgrjón. Að vísu er chili con carne-ið úr krukku, en það er samt gott. Og það besta er að það er nægur afgangur fyrir morgundaginn ;)

Æ og ó. Enn og aftur inneignarlaus. Þetta er vonlaust ástand. Mér finnst ég ekki gera annað en að kaupa inneign og inneign og meiri inneign. Og það versta er samt að ég þarf að fara alla leið útí búð til að kaupa, því það er ekki hægt á netinu nema maður sé með sænskt kort. Svindl.

Jæja ég ætla að fara að einbeita mér að matnum mínum :)

L8er

måndag 28 juni 2010

"Mmm.. noodlesoup"

Já alveg ljómandi góður kvöldmatur.. núðlusúpa með túnfiski. Namminamminamm. Not. Var að koma heim úr vinnu og nenni ekki að elda úr þessu.. ætli hakkið í ísskápnum skemmist ekki bara á endanum, alveg eins og fiskurinn um daginn. Ekki gott.

Þetta var langur dagur, en samt ótrúlega fljótur að líða. Það eru komnir 3 nýir afleysingadýralæknar og allt í einu líf og fjör í vinnunni :) Einn enskur.. haha.. ætlaði að skrifa englenskur.. heilinn soðinn uppúr eftir daginn! Sem sagt, einn enskur strákur sem talar enga sænsku - gangi honum vel. Held að það verði ansi erfitt að læra á tölvukerfið ef maður skilur ekki sænsku, en kannski er hann skarpur ;) Hann verður í allt sumar og mér líst bara vel á það, virkar fínn. Svo er ein norsk stelpa/kona (?) - enn eitt táknið um að aldurinn sé að færast yfir mig - farin að kalla 35+ fyrir stelpur ;) Líst líka vel á hana, og svo er ein sænsk sem verður bara í 10 daga. Hún er amk stelpa - það hlýtur bara að vera - ekki nema tveimur árum eldri en ég. Ég er stelpa. Er það ekki örugglega? Bara stór stelpa. Ekkert svo fullorðin. Bara ponku. Anyways, hún er hress og ég vildi óska þess að hún gæti verið lengur..!

Sjúklingar kjúklingar. Fullt af þeim í dag, en enginn neitt sérlega spennandi. Eyru eyru eyru (oj þau eru svo ógissleg) og já, svona sitt lítið af hverju. Lærði ég eitthvað í dag? Já. Það er gott að vera með hanska þegar maður hreinsar illalyktandi eyru. Og ég lærði á ljósritunarvélina. Maður setur blaðið í og ýtir á græna takkann. Flott hjá mér.

Svo fékk ég launin mín. Það var svosem gott, nema að sænska jordbruksverkinu fannst best að senda mér ávísun. Til Danmerkur. Mhm. Það verður þægilegt að borga húsaleiguna í Övik með ávísun sem er Í DANMÖRKU!!!!!!!

Allt að fara í vaskinn hérna. Fattaði í gær að ég er ekki búin að redda kattapössun fyrir ferðina heim. Stórt klapp fyrir mér. *klapp*

Fattaði svo að ég var ekki búin að pósta bréf sem Jordbruksverkið vill fá í síðasta lagi á morgun. Það mun ekki komast til skila. Annað stórt klapp fyrir mér. *klapp*

Já það minnir mig á annað sem ég lærði í dag. Póstkassar í Svíþjóð eru gráir. Gráir?! Hvað er málið! Ekki skrítið að mér skyldi ekki takast að finna póstkassa á þessum tveimur vikum..! Þeir eru svo innilega gráir og ómerkilegir að þeir renna saman við umhverfið. Sem betur fer fór ég að spyrja hvar maður gæti fundið rauðan póstkassa í vinnunni áðan og þá leiðréttist þessi misskilningur fljótt eftir að 5 spurningamerki höfðu velt fyrir sér í smá stund til hvers í ands**** mig vantaði eiginlega rauðan póstkassa. Gott mál :)

Jæja. Ætla að leggjast útaf og sogast inní sjónvarpið.

L8er.

PS. Þið sem skrifið öll þessi komment á síðuna mína - viljið þið plís hætta. Ég hef bara ekki tíma til að lesa svona mörg komment! Því miður. Þykir það rosa leitt. Rosa.

söndag 27 juni 2010

Myndir af Basjkir hestunum






Hérna eru myndir af þessu merkilega hestakyni.. :)

Skrítinn dagur

Gudrun vakti mig um hálf 10 í morgun og spurði hvort ég vildi koma með í doðabelju. Jajamen, endilega - enda langt síðan ég hef lent í svoleiðis og einmitt mjög algengt útkall á vöktum. Ég rauk uppúr rúminu, skellti í mig morgunmat (súrmjólkin mín sem ég var svo dugleg að kaupa í gær) og dríbbaði mig út.
Var einhverra hluta vegna með alveg gríðarlegan hausverk og leið ekkert sérlega vel á leiðinni. Svo var mér orðið eitthvað hálf óglatt, en hugsaði með mér að það væri sennilega vegna þess að hún Gudrun keyrði pínu skrykkjótt. Þegar við komum svo á staðinn og fórum að skoða beljuna varð mér ennþá meira óglatt, og heimsóknin endaði eiginlega bara þannig að ég var inná baði á meðan Gudrun meðhöndlaði beljuna. Ældi að vísu ekki, en þorði ekki að fara langt frá klósettinu. Svo vorum við á leið í næsta sjúkling og mér leið soldið betur og hélt þetta væri að fara að gefa sig, nema allt í einu hellist yfir mig þvílík ógleði og hún þurfti að stoppa þannig að ég gæti hlaupið út og ælt úr mér lifur og lungum. Skemmtilegt svona með yfirmanninum, hehe ;) En svo eftir það var bara ekkert að mér og ég var alveg stálhress. Weeeeird. Hún stakk uppá morgunógleði en ég hló nú bara að því og sagðist ekkert vera ólétt. "neei.. en þú veist kannski ekki af því" Hm. Þá hætti ég að hlæja.
Ívar heldur því fram að þetta sé bara eldhúshæfileikum mínum - eða þeas skorti á þeim - að kenna, og ætli ég hallist ekki frekar að hans tillögu! Ætla að vanda mig betur næst!

Ég gerði merkilega uppgötvun í dag (þeas fyrir utan "morgunógleðina", haha!) - uppgötvaði nýtt hestakyn! Við fórum að skoða haltan hest, og þegar við komum á staðinn þá glápti ég úr mér augun og klóraði mér mikið í hausnum yfir hestastóðinu sem stóð fyrir framan okkur. Litlir hestar, aðeins stærri en íslenskir og aðeins meira klossaðir, en í öllum mögulegum litum alveg eins og íslenskir hestar og annars mjög líkir þeim að öllu leyti. Komst svo að því að þetta er rússneskt hestakyn, mjög sjaldgæft hérna í svíþjóð, sem heitir Basjkir. Gömul og forn hestategund, eins og íslenski hesturinn. Ég fór strax að spyrja og spyrja (lét Gudrun um halta hestinn, ehe) og komst að því að þetta kyn hefur 6 gangtegundir! Þar á meðal bæði tölt og skeið! Sjötta gangtegundin er svo einhvers konar valhopp skilst mér. Þetta fannst mér gríðarlega merkilegt alltsaman og komst svo að því mér til mikillar ánægju að konan þarna er með hestaleigu, og ekki bara hestaleigu heldur er líka hægt að leigja sér kofa yfir helgi með 300 m niður að vatni og bátaleigu. Ég veit hvað við Ívar ætlum að gera ef hann kemur í heimsókn!!

Jæja þá var Gudrun að hringja, hundur sem var keyrt á á leiðinni til okkar. Best að tölta sér niðreftir, hún kann ekki á röntgengræjurnar og ég ætla að þykjast kunna á þær, haha :P

L8er

lördag 26 juni 2010

Á vakt - en samt ekki...

Furðulegt. Bossinn kom til að leysa mig undan þessari helgarvakt, en samt var ég að vinna í dag. Keyrði veitekkihvaðlangt (yfir klst) til að komast útí rassgat til hests með sár á afturlöpp. Það átti að skipta um sáraumbúðir en það var ekki hægt nema með því að gefa hestinum róandi, svo ég lagði semsagt bara upp í saklausan deyfa-hest leiðangur. Gekk rosa vel að deyfa hestinn, og ég fór svo að plokka umbúðirnar af og fékk illan grun alveg um leið.. ekki góð lykt. Þegar ég komst loks inn að sárinu þá var það allt í greftri og ógeði, og stóð eiginlega galopið þrátt fyrir tilraunir til að sauma það saman um daginn. Þreif það vel og testaði svo hversu djúpt það væri opið, og jújú, potaði bara beint í bein. Síðasta umbúðaskipti var í fyrradag og þá leit þetta víst voða vel út, en það hefur þá eitthvað mikið gerst síðan þá.
Saklausi auðveldi leiðangurinn endaði semsagt í heljarinnar sáraþrifum og veseni og var bara alls ekkert auðveldur!
Þetta tók eiginlega bara allan daginn, að vísu með smá tiltekt í bílnum líka. Fékk kast þegar ég ætlaði að fara að nota þennan fína dýralæknabíl og allt var bara gjörsamlega í rúst.. ef maður hafði ekki sjálfur búið til hrúguna í skottinu þá var engin leið að finna neitt! Svo ég tók mig til og tók bílinn í gegn, nú finnur sjálfsagt enginn annar neitt.. allir vanir því að nálarnar séu í skúffunni þar sem eitthvað allt annað á að vera osfrv. ;)

Fór svo heim eftir þetta, en kjella ætlar að hringja í mig ef eitthvað spennandi gerist. Um að gera að nýta þá helgina til að vera með henni eins mikið og ég get.

Hehe.. myndirnar í síðasta bloggi tókust ekki sérlega vel hjá mér - þær urðu ennþá meira klesstar á sjálfri síðunni..! Vandræðalegt :P
Ætla að gera nýja tilraun:

Þetta er fallega litla vatnið mitt, einn sólríkan og dásamlega kyrrlátan morgun á leið í vinnuna :)Gæs og maríuerla að njóta veðursins, oftast sitja þarna tvær kríur. Það finnst mér svo notalegt :)Þetta er gönguleiðin í vinnuna mína, notalegt ekki satt? :)
Að lokum tvær myndir frá því í gærkvöldi, aftur við fallega vatnið mitt :)Jæja það tókst betur að setja inn myndir í þetta sinn! :P Var að drífa mig svo í morgun og allt fór einhvern veginn í klessu. Lofa að vanda mig betur framvegis ;)

Þarf að fara í búð og nenni því ekki. Veit samt að ég fer í fýlu ef ég fæ ekki súrmjólk í fyrramálið, svo það er sennilega best að dríbba sig. Ekki vil ég að ég fari í fýlu.

L8er

fredag 25 juni 2010

Skoraði þrennu og stórslysi afstýrt á síðustu stundu







Átti ótrúlega góðan dag í gær og má segja að ég hafi skorað þrennu, því mér tókst að gera 3 hluti sem ég hef hugsað um á hverjum degi síðan ég kom hingað!
1. Fór á bæjarrölt, tók langan göngutúr um bæinn og höfnina og komst að þeirri niðurstöðu að þetta er ljótur bær! Búið að gruna þetta í smá tíma, en nú er það hér með staðfest! Það er enginn gamall fallegur miðbær, húsin eru flest öll stór og ljót, og svo er mikið um iðnaðarhúsnæði með stórum reykspúandi strompum. Að vísu er erfitt að sjá bæinn fyrir trjám (aaarrrggh!!) en það sem ég sá var ekki sérlega fallegt. Og hana nú. Skrapp svo á þennan midsommarfest en varð fyrir miklum vonbrigðum þar, engir svíar að hegða sér eins og kjánar, sátu bara að drekka kaffi. Piff! Hérna til hliðar sést sem sagt sænsk midsommarstöng. Hún er reist til að fagna sumrinu, og yfirleitt dansað og sungið og voða fjör, en ég lenti í einhverju hálfdauðu partíi.
Hér koma svo myndir af bænum:




Strompar og reykur. Lekkert.. Myndin við hliðina er sú dauðasta göngugata sem ég hef séð.

Tilraun til að mynda bæinn.. þið sjáið kannski hvað ég á við með of mikið af trjám!


Húsið mitt. Fallegt.. hehe ;) Smábátahöfnin er að vísu krúttleg :)


ÞETTA er hins vegar fyrir utan húsið mitt og er sú fallegasta sjón sem ég hef séð í áraraðir! Langar í!!! Og það er FULLT af svona bílum hérna... þá veit ég hvað sumarlaunin fara í, haha!

Jedúddamía.. þessi myndainnsetning var að gera mig klikk á tímabili enda endaði allt í einni klessu. Það verður bara að hafa það, nenni ekki að dunda í þessu lengur!

2. Ég skokkaði í kringum fallega vatnið mitt! Ótrúlega stolt af mér!! (set inn myndir af vatninu mínu SEINNA)

3. Ég fór á kvöldgöngu.. eða þeas labbaði heim frá Emmu eftir matarboðið, enn og aftur framhjá fallega vatninu mínu! Yndislegt kvöld eftir smá rigningarskúr og svo góður ilmur af gróðri og regni, dásamlegt!

Já svo ég var mjög ánægð með daginn :)

Minna ánægð með að yfirmaðurinn vakti mig kl 7 í morgun til að segja mér að hún væri á leiðinni hingað til að taka vaktina, en yrði smá sein og hvort ég gæti passað símann á meðan. What?!?! Ég skildi ekki neitt, en hún sagðist hafa þurft að "avbryta sin semester" til að koma hingað og taka vaktina. Af hverju sagði enginn mér það?! Pínulítið pirruð núna. En svosem ágætt fyrir mig og dýrin á svæðinu að hún komi, finnst bara að einhver hefði getað látið mig vita.
En þar með er því stórslysi allavega afstýrt ;)

Jæja ætli hún fari ekki að láta sjá sig hérna, best að koma sér á fætur!

L8er :)

Tónlistargleði í húsinu

Ég er svo heppin að það er bæði flautu- og gítarleikari í húsinu (já og "söngvari"). Núna fyrir hádegi hef ég fengið ókeypis flaututónleika í ansi langan tíma, og þar á eftir hófust gítar- og "söng"tónleikar sem standa enn yfir. Lucky me, ekki allir sem fá ókeypis underholdning við lesturinn, ehemm.

Er að íhuga að flýja út. Veðrið er að vísu ekki alveg nógu gott, ætlaði að vera sumarleg og sæt, en ætli ég verði ekki að salta þau plön. Í svona 153 sinn í vor/sumar. Verst að lopapeysan er ekki með.

Það á að reisa svokallaða midsommarstöng hérna niðrí bæ kl. 13. Ætli ég skottist ekki þangað og kíki á herlegheitin. Tek með mér myndavél og næ vonandi myndum af þessum merkisviðburði. Eftir að stöngin hefur verið reist verður að sjálfsögðu dansað í kringum hana - vona að ég geti sett inn athyglisverðar myndir eftir daginn. Þeas ef mér tekst þá að finna staðinn.

Ætlaði annars að lesa í allan dag, en eftir að ég leit á 3 stórar bækur, 1 um gæludýr, 1 um kýr og 1 um hesta, þá féllust mér eiginlega hendur. Get hvort sem er ekki lesið þetta á einum degi og hvar á ég svosem að byrja?? Hvort ætli sé mikilvægara að lesa um júgurbólgu og doða hjá kúm, eða bitsár og niðurgang hjá hundum, eða hrossasótt hjá hestum, eða eða eða...??? Held ég geri bara eins og dýralæknirinn, þeas HINN dýralæknirinn (gleymi alltaf að ég er víst orðinn dýri sjálf), ráðlagði; ef einhver hringir með vandamál sem ég get ekki svarað, bara segjast hringja tilbaka eftir smá stund og fletta því upp eða hringja í vin. Gott plan :)

Jæja, ég ætla að halda á vit midsommarævintýranna! Ekki laust við að ég sé smá einmana í dag. Það er leiðinlegt að vera ein þegar það er hátíðardagur og allir að skemmta sér. Maður veit að öll þjóðin er að bralla eitthvað skemmtilegt í góðra vina hópi! Mér finnst það eiginlega pínu svindl! Að vísu er mér boðið í grill í kvöld til Emmu sem er að vinna með mér, en finnst hálf asnó að troða mér þangað - það eru bara hún og foreldrar hennar.. hehe ;) En ætli ég skelli mér ekki samt.

Jæja. Uuuuuuuuuud!!

torsdag 24 juni 2010

Djúpa laugin

Jahá. Nú á alldeilis að henda mér útí djúpu laugina. Og hún er sænsk og köld eins og allar laugar í þessu landi. Ég sem ætlaði að hafa það næs í heita pottinum, að minnsta kosti þangað til hinn svo kallaði "intro-tími" væri yfirstaðinn, en ég á sem sagt rétt á 14 daga "sundkennslu" áður en mér verður sparkað útí.
Vegna starfsmannaskorts og misskilnings í sambandi við helgarvaktina verður ekki tekið tillit til þess að ég er gagnslaus vitlaus og allslaus wannabe-dýralæknir sem er ekki einu sinni búin með aðlögunartímann, heldur var ég sett á vaktina! Jibbíjey! Not.
Svo ég ætla bara að tilkynna það hér og nú til eigenda gæludýra, hesta og nautgripa í Övik og nágrenni að passa sérlega - og þá meina ég SÉRLEGA - vel uppá dýrin sín um helgina! En in case að þeir sjái þetta ekki var ég að íhuga aðra lausn sem er að setja bara símann á silent. Jebb jebb. Uppfull af góðum hugmyndum ;)

-hvað er að gerast?! Japanir að skora.. AFTUR!!! Þetta getur ekki verið að gerast....?!

Æj það er svo hrikalega gott veður úti, eiginlega of gott. Ég fæ alltaf samviskubit yfir að hanga inni í góðu veðri, en ég meika bara ekki að druslast út núna! Vildi eiginlega óska þess að það væri rigning svo ég gæti hangið inni í tölvu og yfir fótbolta (og borðað súkkulaði!) með góðri samvisku..! Má ég vera inni.......? Plíííís...? Kannski verður líka gott veður á morgun og þá má ég alveg vera inni núna ef ég lofa að fara út á morgun í staðinn. Augnablik. Ok godkendt. Það er flott veðurspá f morgundaginn og alla helgina. Hjúkk :)

Á morgun er enn einn heilagi dagurinn í þessu landi -Midsommar! Og meira að segja lokað á stofunni.. ekki vissi ég að þetta væri SVONA stór dagur.. en þakklát fyrir frídag! Þarf að rifja upp akut medicin og saumaskap fyrir vaktina ;) Vona samt að það verði eitthvað um að vera í bænum, væri gaman að sjá smá líf og fjör á þessum litla stað.

Jæja ég ætla að fara að einbeita mér að því að sjá danina tapa (?!?) á móti Japan.

L8er.

onsdag 23 juni 2010

Dugleg stelpa!

Jamm í dag var ég sveimér dugleg! Fór í bæði bankann og á skattskrifstofuna.. eh.. skattstofuna? Heitir það kannski það frekar? Allavega. Tvö vonlaus erindi sem mér tókst að ljúka af í dag. Mjög stolt af mér. Er núna stoltur eigandi sænsks bankareiknings og tilvonandi eigandi sænsks visakorts, ásamt því að vera tilvonandi skattgreiðandi í Sverige (sem var svosem minna skemmtilegt).
Þetta gekk svosem ekki skandalalaust fyrir sig, frekar en flest sem ég tek mér fyrir hendur. Vildi óska að ég gæti sýnt svipinn sem kom á bankastarfsmanninn þegar ég sagðist vilja opna reikning.. já og ég er frá Íslandi. Hehe... bankamaður með húmor þar á ferð, var ekki á því að fá íslenskan kúnna í litla saklausa bankann sinn í rassgati ;)
Svo hringdi ég í skattinn og ætlaði að ath hvort ég gæti pantað tíma hjá þeim. Fékk samband við símsvara sem bauð góðan daginn og sagði hvert ég hefði hringt. Og svo beið ég. Og svo endurtók símsvarinn það sama aftur. Hmm. Skrítinn símsvari hugsaði ég. Og fattaði svo að þetta var lifandi alvöru kona en ekki símsvari. Fannst þetta gríðarlega fyndið og sprakk úr hlátri og sagðist hafa haldið að hún væri símsvari. Henni fannst þetta ekki fyndið. Ansans. Viss um að bankakallinum hefði fundist það!
Svo fór ég á skattstofuna og settist pent og beið í röð þar til kona kom fram og sagði næsti-eitthvað og labbaði e-ð á bakvið. Ég dreif mig nottla á eftir henni, rölti þarna með henni smá spotta, þangað til hún snýr sér við til að ganga frá gleraugunum sínum uppá hillu. Konan stoppar og horfir mjög svo spyrjandi á mig.. "jaaaaá?" segir hún. Og ég bara "jaaá" og brosi eitthvað. Svo horfir hún bara áfram á mig með furðusvip og spyr hvað ég sé að gera. "uhm.. þú sagðir næsti gjörðusvovel...?"
"Nei. Ég sagði 'næsta hurð' við konuna sem stóð á bakvið þig!"
"Óóóóóó... ehe.."
Aulinn ég! Haha! Sem betur fer fannst henni þetta álíka fyndið og mér og ákvað að afgreiða mig þá bara fyrst ég var mætt þarna hjá henni :P Svona fær maður skyndiafgreiðslu hjá skattinum, hihi..!

Fínasti dagur í vinnunni annars, fyrir utan einn veikan kött sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við. Pirrandi. Er eiginlega búin að dömpa honum yfir á Karin, ég var orðin hálf ráðalaus eitthvað.
Bara einn maður sem kom með "ert þú virkilega dýralæknir" komment, en ég kýldi hann ekki því hann var með svo dásamlegt hár að það hefði aldrei verið hægt! Það var þunnt, sítt og appelsínugult.. og stóð BEINT útí loftið í allar áttir! Eins og mjög gamall og þunnhærður trúður! Ég hefði fyrirgefið þessum manni allt. Vildi að ég hefði getað myndað hann!

Fékk mér loksins minn fyrsta göngutúr í kringum vatnið, er ennþá of kvefuð til að leggja í skokk (hvað getur maður notað þá afsökun lengi??) en það eina sem ég hafði uppúr því var ofnæmiskast og ennþá meira stíflað nef! Fúlt að vera útimanneskja með frjókornaofnæmi, það er svo rosalega mikill gróður hérna í kring! Og samt er ég rosa dugleg að taka lyfin mín, ekki gott :/

Jæja. Ætla að horfa á fúúsboltann!
Hæstvirtur faðir minn bar fram kvörtun yfir "sóðalegu bloggi". Ég skil ekki, finnst bloggið mitt einmitt óvenju pent miðað við minn aldur og fyrri störf! En um að gera að bera fram kvartanir, ég ætla samt ekki að taka mark á þeim.

Kærlig hilsen

tisdag 22 juni 2010

Ekki alltaf gaman að vera dýralæknir

Pínu erfiður dagur í dag. Aflífaði mína fyrstu hunda, já ekki einn heldur tvo. Og þeir komu í þokkabót á sama tíma inn á stofu. Ég var eini dýralæknirinn á staðnum, en sem betur fer var dugleg hjúkka með mér. Þetta voru að vísu bókaðar aflífanir, ekkert akút drama, en samt. Fannst þetta pínu mikið í einu.
Skrítið hvað ég á alltaf erfitt með aflífanir á hundum. Á einhvern veginn auðveldara með að aflífa ketti, hesta og önnur dýr - ekki það að mér sé sama, en það er bara minna erfitt. Fyrri hundurinn í dag var gömul tík, svört labbablanda, og ungt par með hana. Þau grétu bæði frá því að þau komu inn og allan tímann á meðan þetta stóð yfir. Vá hvað ég var nálægt því að henda öllu frá mér og fara bara líka að skæla! Tókst nú sem betur fer að harka af mér og komast fram á gang. Bara til að draga upp næstu pentósprautur og fara inná næstu stofu. Þar var eldri maður með fallegan gamlan veiðihund, hann skældi nú sem betur fer ekki á meðan ég sprautaði svo mér tókst að komast í gegnum þetta. En ái hvað hjartað mitt kramdist.
Er samt mjög ánægð með hvernig þetta fer fram hérna á stofunni. Það er gert svo fallegt fyrir eigendurna. Sett ullarteppi á borðið, loftljósin slökkt og bara kveikt á lampa og einu kerti. Og svo er pakki af tissue við borðið og tveir stólar til að sitja við kveðjustundina. Aflífunarherbergin eru svo með sér útgang út af klinikinni og eigendurnir fá að sitja hjá dýrinu eins lengi og þeir þurfa og geta svo bara laumast út án þessa að þurfa að fara grátandi í gegnum heila biðstofu með fullt af forvitnum augum.

Jæja. Nóg af drama!

måndag 21 juni 2010

"Má ég sjá hvað þú ert orðin stór litla barn?"

Sko. Næsti maður á stofunni sem horfir á mig og segir með barnalegri röddu "Ætlar þú líka að verða dýralæknir þegar þú verður stór, vinan?" verður boxaður í gegnum vegginn og útí sjó. Og hana nú! Ég ER stór!! Så fat det dog!!

Er að verða örlítið leið á þessu ástandi. Velti fyrir mér í gær hvernig þetta verður eiginlega með mig - ætli ég verði bara barnaleg og svo gömul? Ekkert millistig þar sem ég lít bara fullorðin út? Isabelle segir að ég sé alltof sæt og fín til að vera dýralæknir.. að ég þurfi að hætta að greiða mér og maskara mig og vera úfin, mygluð og með bauga niður á rass og þannig yrði ég amk meira sannfærandi. Hmm. Það er samt eitthvað svo leiðinlegt. Mér finnst að maður megi alveg vera vel til hafður þó maður sé dýralæknir.. persónulega fyndist mér meira næs að vera afgreidd af snyrtilegum dýralækni heldur en hennar útgáfu. Fer að vísu eftir því hvort snyrtilegi dýralæknirinn liti út fyrir að vera 14. Þá hefði ég kannski valið hinn þrátt fyrir allt. Argh!

Sit hérna og gúffa í mig hnetunammi. Ég elska sænskt hnetunammi! Alls konar hnetur með súkkulaði og jógúrthjúp. MMMMMMMMM það er svo gott!! Verð samt að fara að hætta þessu.. eða amk fara að hlaupa í kringum vatnið eins og ég hef hugsað mér á hverju kvöldi síðan ég kom hingað. Að vísu er ég löglega afsökuð núna, þar sem ég er með hálsbólgu og hausverk. Viss um að hnetunammi er gott við soleiðis. Held ég hafi lesið það einhvers staðar.

Ég var svo fáránlega þreytt í vinnunni í dag, vona að það hafi verið kvefið, en þetta var bara rugl. Ég sofnaði tvisvar oní bókina sem ég var að reyna að lesa, það var rólegur dagur og dýralæknirinn skrapp heim og assistentinn var að þrífa og ég sat ein í hægindastól að lesa. Sem semsagt endaði með því að ég sofnaði tvisvar. Og þá meina ég steinsofnaði. Úff. Ætla í háttinn kl 22 í kvöld.

Hvað lærði ég aftur í dag? Maniggi. Jú tók júgurbólgupróf á belju í fyrsta sinn í langan tíma, tókst sem betur fer að mjólka úr henni án stórra skandala :P Svo var ég bara að smádýrast, ekkert spennó þar. Það er lítið að gera hjá okkur núna, klinikinn er nánast lokuð vegna skorts á dýralæknum og bara örfá bókuð tilfelli á dag, annars bara akút í sveitir og gæludýr. Pínu boring, en ég er ekki orðin alveg nógu sjóuð til að geta hoppað inn sem dýralæknir í annað hvort stórdýrin eða gæludýrin. Óóóóó sjæse, það minnir mig á það! Æ og ó - hún ætlar að segja mig í símatíma á morgun kjellingin. Hótaði því amk í dag. Oh ég þori ekki að svara í símann -hvað á ég svosem að segja?! Þetta eru allt skrítnir útlendingar sem ég skil örugglega ekki. Já eitt dæmi um hversu óskiljanlegt tungumál fólk talar hérna. Það hringdi bóndi í Karin (sem er semsagt ein af dýralæknunum) og sagði að hún yrði að koma því hann væri með belju og kálfahúsið væri dottið út. Ha? Jebb. Kálfahúsið datt út. Eftir mikið humm og ha komst hún að því að kálfahúsið þýðir sem sagt uterus og beljan var með uterusprolaps.. haha! Dásamlegt :)

Jæja. Búin með nammipokann og best að fara að tussast til að elda kvöldmatinn. Það vita allir að ef maður borðar fisk á eftir nammi þá eyðast áhrifin af namminu og maður kemur út í núlli. Um að gera að drífa í þessu.

L8er :)

söndag 20 juni 2010

Brúðkaupshamingja

...og þá var kátt í höllinni!

Má víst með sanni segja að eigi við hérna í svíaríki þessa dagana. Taumlaus gleði og hamingja og táraflóð yfir brúðkaupi prinsessunnar og frosksins.
Ég og Isabelle slógumst í hóp klikkaðra svía og keyptum okkur snarl og -reyndar ekki kampavín, skiptum því út fyrir brennivín sem okkur leist mun betur á.. og sátum fyrir framan sjónvarpið og fylgdumst með útsendingunni frá brúðkaupinu og skáluðum með reglulegu millibili fyrir þessu öllu saman. Dásamlegur dagur! Og mikið var prinsessan falleg og froskurinn aulalegur. Og svo ekki sé minnst á kjólinn.. yndislegur kjóll! Isabelle hringdi strax í kærastann og pantaði alveg eins, hehe ;)

Fórum svo í staffapartí, fyrst í heimahúsi þar sem var haldið áfram að horfa á brúðkaupsútsendinguna og háma í sig prinsessusúkkulaði úr væmnum öskjum með myndum af parinu á. Skemmtilegt. Hefði átt að kaupa eina svona bara til að eiga sem minningu um þennan merka dag sem ég fékk að upplifa í svíþjóð!

Svo tókst loksins að slíta sig frá sjónvarpinu, og við tók skemmtilegt kvöld með góðum mat og í skemmtilega skrítnum félagsskap af hressum kellingum. Eftir matinn var farið á útiball þar sem var band að spila, hörkustuð þar! Málið var að það var risastórt paintball mót í Sollefteå í vikunni og þetta ball var einhver afslutning á því, þ.a.l. fullt af fólki og bara gaman :)

Í dag var letidagur. Fórum að vísu í langan göngutúr með hestinn hennar. Já þið lásuð rétt, göngutúr með hestinn (útlendingar ERU bara skrítnir, get over it!) og lágum svo uppí rúmi að horfa á vampírumynd, nr.2 mynd um hann Edward. Hann Edward fer reyndar alveg í mínar fínustu taugar, en þessar myndir eru nú næstum möst sí svo ég læt mig hafa það.

Núna er ég komin heim, þreytt, þunn og með hálsbólgu. Gott mál. Ætla að koma mér í háttinn bara.

Gúddnæt

lördag 19 juni 2010

Aldrei verið jafn tæknivædd

Já ég hefði ekkert þurft að kveðja, hér sit ég í rútunni á leið til Sollefteå og kemst á netið. Þetta er ofar mínum skilningi, en held að litli internetkubburinn minn sé orðinn minn bestasti vinur hér í rassgati ;)

Ætlaði bara að segja húrra, því autorisationsnúmerið mitt er komið í hús og ég því orðinn löggildur dýralæknir! Það var gefið út þann 17. júní og kom í póstinum í morgun. Góð dagsetning til að fá leyfið! :D

Anyways, ætla að leggja mig :)

fredag 18 juni 2010

Bless í bili

Snúsaði í 40 mín áðan og er þar af leiðandi að verða of sein. Nenni samt ekki að flýta mér, svo ég tek bara venjulegu elsuna á þetta. Sitja í mestu makindum fram á síðustu stundu og þá fer allt í panik. Það er rigning og ég nenni ekki útúr húsi að leita að rútu sem fer til Sollefteå. Já maður skyldi halda að það væri ekki mikið mál í þessu litla krummaskuði, en bíðið bara - ég veit að mér tekst að villast og týnast og villast aftur áður en ég finn helv. rútuna. Kannski best að fara samt að koma sér út. Svona við nánari umhugsun.

En semsagt, engar fréttir um helgina. Ætla bara að slappa af og hafa það næs. Já og fara í staffapartí með isabelle í kvöld :)

L8er

Í dag lærði ég....

... fyrst og fremst að það er betra að hrista drykkjarjógúrtina sína áður en maður opnar hana, en ekki á eftir. Átti stórleik í hádeginu í vinnunni.

Svo lærði ég að afhorna kálfa, eða þeas rifjaði það upp. Lærði það víst í skúúle. A long long time ago.

Í gær "endurlærði" ég líka að gelda kálfa, gaman gaman :)

Í dag lærði ég á röntgen tækið í vinnunni, digital og fancy. Gaman að því líka. Svo sá ég feitasta schäfer sem ég hef á ævi minni séð, hann var tæp 60 kg! 8 ára og með liðavandamál. Skrítt.

Svo var ég dugleg og bjó til hematom á litlum hundi í staðinn fyrir að taka úr honum blóð. Eigandinn var rosa töffari, tattúeraður með sítt skegg og risa ljóta eyrnalokka - svona plötur sem eru inní eyrnasneplinum. Svaka gaur og með staffordshire bullterrier, en þurfti að setjast útí horn þegar ég fór að tala um blóðprufu til að hrynja ekki í gólfið. Sætastur :) Einmitt gaman að þurfa að brasa við að stinga í tvær æðar þegar eigandinn var hálfmeðvitundarlaus við hliðina..! En tókst allt að lokum og allir fóru heim glaðir og við meðvitund :P

Var að panta mér flug heim til Ak áðan. Þvílíkt og annað eins vesen. Það er víst ekki hægt að neita því lengur að þetta er bölvað bévítans krummaskuð sem ég bý í. Það er ekki einu sinni lest hingað! Og ekki flogið á laugardögum eins og ég ætlaði mér. Og eitt einasta flug á sunnudögum. Svo planið lítur svona út: Övik - stokkh. fös 2. júlí (þarf að fara fyrr úr vinnunni því seinasta flug er 17.20. Flug frá stokkh. til köben á fös.kvöldi. Flug frá Köben til Ak á laugardegi. Heimferð: Flug Ak-Rvk á laugard. 17. júlí. Morgunflug frá Rvk - Stokkh. á sunnudegi. Lending 12.45. Spretthlaup (aftur!! -tækifæri til að bæta mitt persónulega met!) í flugið til Övik sem fer kl 14.00. EINS GOTT að Icelandair haldi áætlun. Líkur? Litlar.

Veit ekki hvað þetta eru mörg flug (og margir peningar!!!) en finnst þau virka mörg. Ætla ekkert að vera að telja. Er reyndar pínu hrædd um að ég hafi gleymt einhverju fluginu og strandi á leiðinni. Það væri týpískt!

Namm namm. Er að borða Abba fiskibollur úr dós. Hitaðar í örbylgjuofni. Svíþjóð er vinur minn : )

Fólkið hérna er skrítið. Það er á svo hægri stillingu. Ég skil þetta bara ekki. Allir tala svo hægt og svo lágt, ég heyri aldrei neitt og skil ekki hvernig fólk getur talað saman. Týpískt samtal hjá mér og Emmu (sem ég fer með í sveitina) er svona:
Ég: "En hvernig er þetta aftur með *eitthvað*, hvernig gerir maður það?
...þögn...
...þögn... (eftir 2 sek hugsa ég: ok. Hún heyrði ekki í mér. Eða heyrði hún í mér? Hm.)
...þögn... (eftir 5 sek hugsa ég: Nei. Hún heyrði ekki. Verð að spyrja aftur.)
...þögn...(eftir 7 sek hugsa ég: En hvað ef hún heyrði. Þá er fáránlegt að spyrja aftur.)
...þögn...(eftir 9 sek: En kannski er hún bara að hugsa. Já.)
...þögn... (eftir 10 sek: Hún heyrði ekki. Verð að spyrja aftur)
-opna munninn til að spyrja - og þá kemur svarið oftast. Vá! Þá er ég búin að ná að hugsa hálfa skáldsögu og 10 spurningar í viðbót!

Þetta er ekki alveg minn stíll. Og heldur ekki að tala svona rosalega lágt eins og fólk gerir. Veit ekki hvort það er af því að ég er vön að vinna með gömlu mis-heyrnarskerrtu fólki, en ég stend mig að því aftur og aftur að standa nánast á öskri þegar ég tala við ókunnugt fólk. Bændurnir hérna halda örugglega að ég sé alvarlega skrítin. Lítil og barnaleg, stend hálf falin á bakvið Emmu (hún er soldið stór á suma kanta) og ef þeir yrða á mig þá skil ég sjaldnast hvað þeir segja (tala lágt og trikkí mállýska) og segi (garga?) "hvað sagðiru" x3 og svara svo einhverju aulalegu.
Svo er Emma alltaf frekar stressuð (mikið að gera og vantar dýralækna) og ræðir það oft við bændurna. Þeir stinga uppá að fá einhvern í sumarafleysingar og þá berst athyglin aftur til mín þegar Emma bendir á mig (hálf uppgefin á svip) og segir: Joo.. det här är våran nya sommarvikarie. Og ég vinka eins og auli, bóndinn horfir furðulega á mig. Jahaa.
Þetta eru skemmtileg móment!

En það þýðir ekki að gefast upp. Er kannski auli núna, en það verður þá bara að vinna í því. Lofa að ég verð ekki auli í lok sumars!! :P

Ég hlakka bara til að vita hvort ég verð orðin svona hæg þegar ég kem tilbaka. Tala hægt og lágt. Veitiggi.

Jæja. Er þetta ekki að verða ágætt í kvöld. Ætla að skella mér í heimsókn til Isabelle á morgun. Hún býr í Sollefteå og vinnur þar, rúm klst með rútu. Ætla að vera hjá henni yfir helgina, verður gaman að hitta hana! Að vísu langar mig pínu að sofa bara alla helgina, slappa af og lesa smá í bókunum mínum.. en það verður þá bara næstu helgi. Get alltaf einhverfast seinna :P

Já af því að ég er nebbla ekki að einhverfast núna. Ein að blogga á föstudagskvöldi, étandi fiskibollur úr dós og að ærast úr vuvuzela hávaða. Sjáum til hvort mér tekst að toppa þetta næstu helgi :)

L8er.

torsdag 17 juni 2010

Úbbsí

Hahah.. vá hvað titillinn á blogginu áðan meikaði ENGANN sens.. ætlaði að skrifa aðra sögu, en nennti því svo ekki. Kemur kannski seinna bara.

"Våran nya sommarvikarie"

Enn einn góður dagur hérna í Övik.. bíddu við, það gerir þá heila 3 góða daga. Næs.

Fékk minn fyrsta sjúkling í dag sem ég átti aaaalveg sjálf :) Gaaaaman *klapp-klapp* Lítill (og voða góður!) smáhundur, stóð eins og engill og lét mig gera allt við sig. Mjög heppilegur fyrsti sjúklingur! Veit svosem ekkert hvað var að tíkargreyinu, en góður sjúklingur samt. Hehe ;)
Svo fór ég í sveitina aftur.. ég fíla sveitina. Úff hvar á ég eiginlega eftir að enda?? Stundum er ég hrædd um að ég endi sem beljulæknir. Sveimér þá. Mér finnst það alveg lúmskt gaman. En samt. Langar að vera hestalæknir. Eða hundalæknir. Allavega ekki kattalæknir. Kettir eru evil.

Fórum m.a. í mjög skrítið case. Hugmyndir eru mjög vel þegnar. Belja sem fékk hellings hornös fyrir 3 dögum, smá slöpp og borðaði aðeins minna en vanalega fannst bóndanum. Í morgun tók hann eftir því að hún var bólgin neðan á kjálkunum og kinnunum og hann fann viðbjóðslega lykt útúr henni. Við komum um 13-leytið og þá var beljan orðin stokkbólgin, nánast eins og hálfur fótbolti undir neðri kjálkanum, grjóthart og algjörlega symmetriskt. Hún var ekki með hita og ekki lengur slöpp og hámaði í sig hey og kraftfóður á meðan við skoðuðum hana, og vonda lyktin og hornösin var farin. Kíktum uppí hana, engin sár eða neitt að sjá þar, og heldur ekki á hausnum eða neins staðar í kring. Hvar eredda?? Ég veit ekkert um kýr og dýralæknirinn vissi ekki heldur.

Jæja, klukkan orðin margt og kominn háttatími. Kom heim úr vinnunni hálf 10 svo það er ekki mikill tími fyrir fréttapistil.

Over and out frá Övik.

onsdag 16 juni 2010

I smell like a cow.. and I like it!

Jáh sveimér þá, lifði líka af dag 2 í vinnunni. Allt að gerast hérna. Er að vísu með mega ritstíflu og man ekkert hvað gerðist eiginlega í dag. Lykta samt eins og belja, þannig að ég hef sennilega farið í fjós.

Hux hux. Jú. Byrjaði inná klinik, ekkert sérlega spennó um að vera þar. Finnst reyndar endalaust fyndið þegar hjúkkurnar eru búnar að bólusetja og koma til mín að fá undirskrift... weird. ÉG er manneskjan sem er vön að hlaupa um allt að fá undirskriftir.. vita þær það ekki?! Döööh.. ;)

Eftir hádegi fór ég með í sveitina, tókum sauma úr einum hesti og fórum svo í akút.. uhm.. veitiggi hvað það heitir á íslensku.. þegar legið dettur út - anyone? Fórum allavega í svoleiðis útkall hjá nýborinni kjötbelju. Sem betur fer óvenju róleg og góð. Hjúkket. Kjötbeljur - not my thing. Blessaður bóndinn hafði því miður sýnt mikinn dugnað og hafði tekist að troða leginu sjálfur inn, þvílíkt skúffelsi! En ég fékk þó amk að loka fyrir pjulluna á greyinu.

Fór í matarbúð áðan. Spekúleraði lengi hvort það yrði hin ódýra og afspyrnu leiðinlega matvörubúð Lidl.. Liedl.. Ledl.. uhm. Eitthvað. EÐA.. hin risastóra yndislega stórfenglega sænska ICA verslun við hliðina. Sem er dýr. Í ljósi þess að ég ætlaði bara að kaupa jógúrt og súrmjólk, aðeins bara pínu jógúrt.. jú nó, þá ákvað ég að leyfa mér að fara í ICA. Big mistake. Big. Ég mun aldrei geta farið inn í þá verslun öðruvísi en að koma með amk 2 innkaupapoka út. I am in love. Þessi verslun er engu lík! Næst tek ég svefnpokann með og fæ að gista.. ætla að leggjast þétt upp við alla fersku ávextina og berin. Nei! Brauðdeildin! Frekar þar. Neei!! Ostadeildin..! Kavíarinn! Snabbmakkarónurnar..! Allur ferski fiskurinn! Eða kjötið! Eða morgunkornið! Eða mjólkurvörurnar.. eða hnetusælgætið. Nei. Nú veit ég. Leggst hjá deildinni þar sem maður getur blandað sitt eigið müsli í þar til gerðum müslí-bar! Ohhh.. þessi búð er OF mikið! Ég gæti án gríns eytt hálfum degi þarna inni. Ef ekki heilum!
Þar fóru allar tilraunirnar mínar til að verða fit og flott fyrir sumarið! En það kom hvort sem er aldrei bikiníveður í Köben - í þetta EINA sinn sem mér tókst að vera komin nokkurnveginn í bikiníform, já þá kom ekkert sumar. EKKI FYNDIÐ!! (hver sá sem stóð fyrir þessum ömurlega djóki má skammast sín). Anyways, það er annað problem. Mergurinn málsins er að ég ætla að dissa bikiníform og flytja inn í ICA. Jebb. Gott plan. Gott.

Jæja, nóg um mín problem. Ætla að horfa á fótbolta og hvíla mig. Trött jag e trött jag e jättejättetrött! :)

Zzzzzzzzzzzzzzzzzz.

Nei gleymdi einu. Simmi - hvernig kommentar maður á þetta blogg? Nenniru að skrifa það :)

tisdag 15 juni 2010

Brúnt brauð

Mmmmm.. skil ekki hvernig svíar geta búið til svona gott brúnt brauð! Það er dökkbrúnt, en SAMT gott! Smá onkuponku vottur af kryddbrauðsbragði.. Me like! Og það er semsagt brúnt þannig að maður getur ímyndað sér að það sé roooosalega hollt! :)
Danir geta bara pakkað sínu rúgbrauði saman og farið heim.

Þreyttur wannabe-dýri á leið í vinnu.

Hej allihopa!

Jæja hvern hefði grunað þetta...? Ég hef snúið aftur á sænska jörð - það hlaut að vera að ég hefði hlotið einhvern varanlegan skaða af þessum 7 árum sem barn í svíaríki. Er semsagt mætt aftur til Sverige.. og ég fílaða! Össsss....

Er stödd í hinu sænska rassgati, Örnsköldsvik. Hér ætla ég að eyða 10 vikum af sumrinu mínu og reyna að þykjast vera dýralæknir! Ákvað að það yrði auðveldara að plata vitlausa sveita-svía heldur en köben-búana. Mun starfa við sumarafleysingar á blandaðri stofu, aðallega gæludýr samt, en inná milli hestar og kýr.

Í tilefni þessa ákvað ég að endurlífga bloggið mitt, en í nýrri og hressari útgáfu, svona fyrir þá sem vilja fylgjast með ævintýrum mínum. Og þau eru þegar hafin og þið hafið misst af ca 7. Too bad.

Fyrir þá sem ekki vita er Örnsköldsvik lítill hafnarbær í n-svíþjóð, nánar tiltekið 1179 km frá Kóngsins Köben. Jebb Jebb. Kom hingað í gær.. vá.. í gær? Líður eins og það sé vika síðan. Lenti í ýmsu brasi á leiðinni, m.a. var flugið mitt milli stokkhólms og övik (eins og lokalbúar kalla pleisið - mér finnst það tzöff) fellt niður og ég umbókuð í flug sem var tímasett akkúrat klst eftir lendingu í stokkhólmi. Og það var ekki hægt að tékka farangurinn inn alla leið. Í stuttu máli þá setti ég nýtt heimsmet í flugvallarspretthlaupi með 34 kg af farangri (tíminn var 12 mín. og aðeins einn felldur samfarþegi) á milli farangursbands og terminal 4 og komst sveitt og sæl um borð í vélina. Sá stórlega eftir þessu mikla spretthlaupi þegar vélin tókst á loft, því þá óskaði ég þess að ég hefði aldrei komist um borð! Þvílík flugvél... gömul og samanteipuð (ok sá það ekki, en er viss um það samt!) og pústaði og puðaði og ég beið eftir því alla leiðina að hún myndi gefast upp (nema þegar ég fékk kókosbollu, þá gleymdi ég mér í smástund). En sveimér þá. Það hafðist og ég lenti in the middle of nowhere. Var sem betur fer sótt af dýralækninum - eða já, það má deila um "sem betur fer" - henni tókst að villast á þessum 20 km sem áttu að vera á milli vallarins og övik... og eftir svona 40 mín bílferð ákvað ég nú að spyrja hvort við værum ekki að verða komnar.. "Va? Men?? HERREGUUUUD!! VAR ÄR VI NÅNSTANS??" Jebb jebb. Kom í ljós að hún hafði misst af einni beygju, og við vorum komnar 65 km frá övik. Þetta var laaangur dagur.
En hún var fyndin. Það er að segja óvart fyndin. Sennilega með þeim leiðinlegustu manneskjum sem ég hef hitt, en táraðist af innbyrgðum hlátri þegar hún fór að segja mér frá brúðkaupinu sem hún ætlaði í á laugardaginn. Jahaa sagði ég, en gaman. Jamm sagði hún.. að vísu var hún ekki beint að fara í brúðkaupið, en sko.. þetta var sko brúðkaupið hennar Viktoríu (prinsessan jú nó) og það átti að sýna það í sjónvó allan heila laugardaginn, sagði hún einstaklega ánægð. Þá hló ég pínu inní mér. En tárin.. ó tárin komu fyrst þegar hún fór að útskýra þetta nánar - hún ætlaði í klippingu, klæða sig upp og sitja fyrir framan sjónvarpið með kaffi og fika (bakkelsi) sem hún ætlaði að raða á rosa fínan bakka sem henni hafði verið gefinn - með gylltri rönd og þremur gylltum kórónum. Ó nei. Ó nei. Ó nei. Välkommen till Sverige! Óborganlegt! Strax á þessari stundi vissi ég að ferðin hingað hefði borgað sig, þó ekki væri nema fyrir þetta eina móment!

Jæja, nóg um það. Kemst samt ekki yfir þetta. En.. Klinikin já. Mér líst mjög vel á þetta, fannst ég að vísu voða vitlaus og ekki kunna neitt í dag, en það var nú bara eins og forventet. Líst vel á vinnufélagana og umhverfið og held barasta að ég eigi alveg eftir að fíla mig þarna. Af helstu afrekum dagsins má nefna að við aflífuðum risavaxinn ránfugl! Hef aldrei verið svona nálægt svona stórum fugli, lappirnar á honum voru álíka þykkar og framfætur á meðalstórum hundi. Og klærnar maður.. sjææææse! Þetta var að mig minnir tegund sem heitir berguv, og þetta var ræktunardýr sem var búið að skila sínu. Vá. Ólýsanlega mikilfenglegt og fallegt dýr og synd að þurfa að aflífa það. Svo aflífaði ég kött með eigandann til staðar, hef ekki gert það áður. Það gekk allt saman vel og engir skandalar. Já og svo tók ég blóð úr smáhundi og hitti í fyrsta - maður verður að gleðjast yfir litlu sigrunum.. haha! Annars var ég mest að fylgjast með, læra á tölvukerfið og ekkert nema augun og eyrun, enda soldið þreytt núna.

Held ég fari að segja þetta ágætt af ævintýrum mínum enn sem komið er. Hellings meira sem mig langar að skrifa, en held það komist varla fyrir á netinu það er svo mikið ;) Geymi það kannski aðeins. Jú eitt. Ég hafði nú töluverðar áhyggjur af því hvað ég er lítil og barnaleg og hvernig fólk ætti að taka mig alvarlega sem dýralækni. Þær áhyggjur fengu stórfelldan stuðning í dag hjá strætóbílstjóra nokkrum sem spurði hvort ég ætlaði að fá barnamiða. Hlæja eða gráta?!?! Veistu ég bara veit það ekki. Veðjaði á hlæja, en veitiggi hvort það var rétt.

Anyways. Segi þetta gott í bili!

Kveðja út-rassgats-víkingurinn :)