lördag 31 juli 2010

Long tæm nó skrif...

Sit hérna heima í Övik og læt mér leiðast og er einmana. Þetta er nánast í fyrsta sinn sem ég hef haft tíma og orku í það. Yfirleitt finnst mér bara gott að vera ein og hvíla litla þreytta hausinn minn, en núna langar mig að hitta einhvern og gera eitthvað!

Var að vísu í Sollefteå hjá Isabelle í gær en það var ekki eins skemmtilegt og ég hafði vonast til. Við hættum semsagt við að fara á fimmtudagskvöldinu, Isabelle var slöpp og vildi ekki fá okkur, en ég ákvað að drífa mig ein í gær í staðinn.
Hún og vinnufélagar ætluðu að hittast og snarla saman og fara svo út á lífið, það var einhver útihátíð í gangi í bænum.

En þessi kvöldhittingur. Guð minn góður. Þetta voru allt dýralæknar eða dýrahjúkkur. Barnlaus að vísu - EN.. allir með hund með sér. Sem ung (?) og barnlaus stúlkukind hef ég oft orðið pínu þreytt á því í matarboðum þegar ekki er hægt að halda uppi samræðum við foreldra vegna barnanna þeirra sem annað hvort eru suðandi tuðandi vælandi skælandi ælandi eða að gera eitthvað af sér. Eftir þetta kvöld mun ég aldrei aftur pirra mig á þessu. Í þessu boði var ekki hægt að halda uppi samræðum útaf.. nú læt ég vaða.. helvítis bölvuðum óöguðum geltandi illalyktandi og illa uppöldum hundkvikindum! Endalaus slagsmál og áflog og sveittir eigendur að veltast um gólfin við að reyna að ná taki á sínu hundkvikindi til að skamma það. Til þess eins að sleppa því aftur inní hrúguna af hundum. Til þess eins að svitna enn meira við að reyna að ná taki á því aftur. Og aftur. Og aftur. Og aftur. Og svo var einum hent út. En þá tók annar við. Og svo kom nýr gestur. Með nýjan hund. Og allt vitlaust.
Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Eitt dæmi. Reynið að sjá þetta fyrir ykkur: Nýi ofvirki risavaxni hvolpurinn hennar Isabelle, á stærð við íslenskan fjárhund, uppí gluggakistu (!) að hoppa uppá rúðuna til að reyna að komast í gegnum gluggann og út að veiða hænur. Með 3 geltandi hunda fyrir neðan gluggakistuna sem vildu líka vera með og 4 misdesperate eigendur að reyna að hafa stjórn á sínu dýri.

Ég held ég velji þá frekar fjölskylduboðin með óþægu börnunum heldur en dýralæknaboðin með brjáluðu hundunum!

Nú skil ég líka hvernig tilfinning það er þegar vinkona manns eignast barn og skyndilega er ekki lengur hægt að ná sambandi við hana. Isabelle var gjörsamlega sambandslaus útaf nýja hvolpinum, var einhvers staðar ein inní herbergi með kvikindinu hálft kvöldið á meðan ég var að reyna að spjalla við hitt hundafólkið. Þegar hún kom svo loksins fram þá varð hún að sitja með villidýrið í fanginu restina af kvöldinu og var þar af leiðandi alveg jafn sambandslaus og þegar hún var inní herbergi.

Eftir nokkrar klst af hundaáflogum voru allir orðnir svo þreyttir að það var ekki hægt að fara út á lífið.

Skrítið kvöld.

Kom svo heim til Övik áðan og hef látið mér leiðast síðan. Er boðið í grillveislu hjá vinnufélaga í kvöld, en þar sem ég er bíllaus og þetta er um 10-15 km fyrir utan bæinn lítur ekki út fyrir að ég komist þangað. Magnað.
Kannski ég kaupi mér bara gamlan Audi :)

L8er

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar