Nammnamm. Var að ljúka við alveg hreint dásemdar kvöldmat. Ótrúlegt að mér skyldi ekki takast að klúðra þessu. Alltaf þegar ég kaupi eitthvað gott og geri mér miklar vonir og væntingar þá fer allt í vaskinn. Bjóst þess vegna ekki við því að þetta myndi takast hjá mér, en þar af leiðandi varð þetta ennþá betri máltíð fyrir vikið! Eldaði mér nautalund með kantarellusósu og ferskum kantarellum. Namminamm! Bara ágætis kvöldstund, nema ég klikkaði á rauðvíni! Skandall.
Annars hefur mér gengið alveg hreint framúrskarandi vel að gera ekkineitt um helgina. Eiginlega bara betur en ég bjóst við. Fór að vísu í bæjarleiðangur í gær til að reyna að redda linsum og það gekk nú álíka vel og allt annað í þessum litla lorta-bæ = illa. Í Övik eru 6 linsubúðir. Hversu margar eru opnar á laugardögum? Núll. Til að reyna að dempa aðeins gremjuna yfir þessu skrapp ég í búðir og skoðaði föt eins og ég ætti lífið að leysa í nokkrar klst. Endaði svo daginn á því að fara í matarbúð og ætlaði svo að skella mér í strætó heim með matarpokana. Eftir klst bið í strætóskýlinu læddist að mér illur grunur. Bara grunur samt, því í Övik eru engir auglýstir strætótímar. Amk ekki í linje 1, 6 og 22 sem eru þær línur sem ég get tekið heim. Í hinum skýlunum voru upplímdir pappírsseðlar og ég fór að kíkja á þá og það renndi enn frekari stoðum undir minn illa grun. Allir þeir strætóar sem var plan fyrir hættu að ganga á laugardögum milli 14 og 15. Klukkan var þarna orðin rúmlega 16. Eftir að hafa beðið soldið lengur, hringt í Ívar og öskrað yfir þessum hörmulegasta bæ veraldar neyddist ég til að horfast í augu við það að það myndi ekki koma neinn strætó og ég varð því enn og aftur að plampast upp brekkurnar og alla leið heim með þunga innkaupapoka. Arrgh arrggh og aftur arrrggh! Héðan í frá stíg ég ekki fæti mínum niður í þennan bæ. Punktur og Pasta. Nema nottla á morgun. Þarf víst að endurtaka linsuleiðangurinn. Demit.
Í dag var svo dagurinn sem ég gerði ekki neitt. Það hellirigndi nánast allan daginn, svo þetta var eiginlega fullkominn geraekkineittdagur. Búin að hanga á netinu og facebook og núna veit ég allt um alla. Loksins. Var farin að hafa áhyggjur af því að ég hefði misst af svo miklu. Hefði varla getað byrjað nýja vinnuviku án þess að vita hverjir þrifu íbúðina sína, hverjir bökuðu köku, hverjir fóru í útilegu og hver átti sætasta barnið. En núna er það allt komið á hreint. Hjúkket.
Fór að vísu í smá labbitúr áðan eftir að rigningin gat ekki meir. Skrapp hérna upp í skóginn fyrir ofan húsið mitt, en þangað hef ég aldrei farið áður. Endaði ekki betur en svo að ég varð ofurtaugaveikluð og myrkfælin (samt var ekki myrkur) því ég var eina manneskjan á ferli þarna. Byrjaði vel samt, fann sætan lítinn fuglsunga og sá dádýr. Svo fann ég líka aðalbláber. Svo fann ég skítahrúgu frá dýri sem ég vissi ekki hvað var. Þá fór ég að ímynda mér að það væru bjarndýr í skóginum. Og að þau væru líka sólgin í bláber. Og væru öll að bíða bakvið næsta runna. Og svo mundi ég að það eru höggormar í svíþjóð. Þeir voru líka á bakvið hvern stein og hverja grein að bíða eftir að ráðast á mig. Maður á að vera í stígvélum. Svo eftir að fallegi skógurinn varð allt í einu uppfullur af vondum dýrum, jah auðvitað fylltist hann þá líka af vondu fólki. Einhvers staðar verða vondir að vera og þarna hafði ég akkúrat fundið staðinn þar sem öll vondu dýrin og vondu mennirnir í Övik búa. Obbobobb. Svo ég flýtti mér heim og ákvað að héðan í frá skyldi ég bara labba í kringum litla saklausa vatnið mitt þar sem allt góða fólkið labbar með góðu hundana sína. Og stundum eru góðar kisur líka. Jebb.
Þetta voru helstu viðburðir dagsins. Á morgun byrjar ný vinnuvika og ég er ekki alveg búin að ákveða hvort ég sé úthvíld, ofhvíld eða bara ennþá þreytt. Hallast samt frekar að ofhvíld svona miðað við þá staðreynd að ég svaf í 11 tíma fyrri nóttina og 10 þá seinni.
Já nú man ég. Müslíupdate. Nýja draslið var vont, jafnvel verra en það fyrra. Svo nú er hörð barátta - það er ógó vont og ég fæ mér oftast bara lítið.. en ef ég hins vegar myndi fá mér mikið þá myndi það klárast fyrr. Hmm.
Keypti Polarbröd í fyrradag. Hef ekki gert það hingað til, því ég var hrædd um að ég myndi éta allan pokann í einu. Ákvað að leyfa mér það samt núna og gera bara tilraun. Lofaði sjálfri mér að éta bara eina brauðköku á dag. Það gekk bara mjög vel. Í gær. Í dag er ég búin með 3. Ansans. Held ég sé fallin og það verður ekki keypt meira sona :(
Anyways. L8er.
Inga kommentarer:
Skicka en kommentar