Ég var LÉLEGASTI nemandinn á sveppanámskeiðinu! Þvílíkur skandall! Ég sem elska að tína sveppi og er góð að finna þá.. á Íslandi. Ég labbaði og labbaði og paufaðist og paufaðist í þessum stóra ljóta sænska skógi sem var fullur af trjám og gróðri og ég fékk innilokunarkend og blotnaði í tærnar og var stungin af mýflugum og bitin af höggormi og stönguð af elg (neei ókei, smá ýkjur.. en samt!). Og ég bara fann ekki sveppi. Bara ekki.
Eftir laanga leit rakst ég á þrjú eintök af svart trumpetsvamp. Ef maður finnur einn þá eru þar fleiri, oft í stórum breiðum. Það lærði ég í bóklega tímanum. Svo ég fylltist hamingju og nýrri trú á lífinu. En nei. Það voru bara þessir þrír. Þeir hafa gleymt að lesa kaflann um útbreiðslu sína í bókinni. Asnar!
Svo var ég farin að örvænta og íhugaði alvarlega að láta mig bara hverfa í skóginum og aldrei snúa aftur. Það voru 5 mínútur í hitting (fika!) og ég var ennþá bara með 3 pínkulitla sveppi í körfunni og búin að sjá útundan mér hvernig allt hitt fólkið skreið um á fjórum fótum og tíndi í gríð og erg. Þá fann ég 7 kantarellur og 2 eitursveppi. Skellti þeim í körfuna (eitursveppirnir sem uppfyllingarefni svo þetta liti aðeins meira út) og neyddist svo til að labba tilbaka og feisa það að vera lélegasti nemandi námskeiðsins. Heimsku ljótu svíar með heimsku ljótu fullu sveppakörfurnar sínar.
Skandall. Ég segi ekki annað.
Og ég sem keypti nautasteik í gær til að hafa með öllum kantarellunum sem ég ætlaði að tína. Jamm og jæja. Við ætlum út í skóg aftur annað kvöld svo ég verð að reyna að standa mig betur. Þýðir ekki að gefast upp. En ég sver það - ef ég sný ekki tilbaka úr skógarferð morgundagins þá vitið þið af mér ráfandi einhvers staðar útí skógi með tóma körfu - of þrjósk og skömmustuleg til að láta sjá mig í mannabyggðum á ný.
Annað sem ég lærði í dag (fyrir utan að sveppanámskeið eru glötuð) var að það borgar sig að skrúfa lokið á neskaffibaukinn. Sérstaklega ef hann er stór. Og maður rekst í hann. Og hann dettur í gólfið. Og maður á ekki ryksugu. Já maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.
Litlir ljótir svíar í halarófu :)
Jæja. Ég ætla útí búð að kaupa mér sveppakörfu. Og kannski sveppabók svo ég sé klár í slaginn á morgun. Svo vona ég bara að sveppirnir hafi lesið sömu bók og ég og geti nú haldið sig þar sem þeir eiga að vera og litið út eins og þeir eiga að gera. Og vaxið í stórum breiðum takk.
L8er
L8er
Inga kommentarer:
Skicka en kommentar