onsdag 4 augusti 2010

Ekki fleiri ævintýri takk, þetta er orðið ágætt takk.

Var á vakt í gærkvöldi. T'íðindalaust þangað til ég var nýkomin inn úr dyrunum um 19-leytið eftir skýrsluskrif og hangs í vinnunni (síminn hringir einhvern veginn alltaf þegar ég er ný-eitthvað; nýkomin úr vinnufötunum, nýsest í bílinn til að keyra heim, nýkomin innúr dyrunum heima, nýbúin að setja hakkið á pönnuna.. osfrv.)
Jæja síminn hringdi semsagt. Hvolpur sem hafði lent í slag við stærri hund. Jamm og já. Já og augað hangir út. Ó. ó. ó. Ég sagði þeim að koma á spítalann og krossaði alla mína fingur og tær að þetta væru móðursjúkir eigendur og að augað væri á sínum stað.
Neibb.
Augað var ekki á sínum stað. Bara frekar langt í frá. Þetta var pínkulítill hvolpur, 1,5 kg af ónefndri ófríðri smáhundategund með útstandandi augu - og semsagt annað þeirra alveg óþarflega óvenjulega útstandandi. Dýrið argaði af öllum lífs og sálar kröftum og fjölskyldan skældi.
Úff púff. What to do? Sem betur fer var ég svo ótrúlega heppin að samstarfsmaður minn sem er í sumarfríi var staddur á klinikinni að brasa eitthvað og ég gat fengið hann til að hjálpa mér að koma auganu á sinn stað. Það gekk ekki áfallalaust, en hafðist fyrir rest og nú veit ég hvernig maður gerir það. Maður er víst alltaf að læra eitthvað nýtt.
Það merkilega við þessa sögu er hins vegar það að hundurinn sem orsakaði þennan augnskaða var einn af sjúklingunum mínum. Elsku uppáhalds bangsasjúklingurinn minn sem ég hef eytt vikum í að reyna að bjarga.. já einmitt.. auganu úr! Hún er með stórt hornhimnusár sem vill ekki gróa og ég hef gert ALLT fyrir hana M. mína! Núna síðast sendi ég hana til sérfræðings einhvers staðar langtíburtu.. og hún kom tilbaka og þakkaði mér fyrir með þessum hætti! Skamm!
En sagan er nú ekki búin enn. M. fékk nefnilega sinn augnskaða í slag við hund. Og sá hundur tilheyrir fjölskyldunni sem átti litla hvolpinn sem M. réðst á í gær.
Talandi um auga fyrir auga!
Þessar fjölskyldur eru semsagt nágrannar. Ég stakk upp á því að þau myndu smíða góða girðingu á milli. Fjölskyldan hafði ekki húmor fyrir því. Skrítið.

Af öðrum athyglisverðum atburðum dagsins má nefna að ég var að reyna að lækna 1 árs gamlan rottweilerhlunk, 53 kg takk fyrir takk. Hann asnaðist til að setjast oná fótinn á mér.. og ég sat föst! Ég er að meina það - ég gat ekki losað fótinn undan flykkinu, hann þurfti að standa upp á endanum! Hahaha.. mér fannst þetta alveg endalaust fyndið! Aldrei lent í svona vandamáli áður!

Namm namm. Ég eldaði mér snabbmakkó og mamma scan sænskar kjötbollur með tómatsósu. Eldaði mér helmingi meir en ég ætlaði að borða, ætlaði að taka afganginn í nesti. Nema bara það varð enginn afgangur. Úbbsííí...

Á morgun ætla ég að gerast sænskur lúði! Ég ætla að fara á sveppanámskeið! Emma og Jenny í vinnunni ætla að fara og buðu mér með.. þar sem það eru takmarkaðir afþreyingarmöguleikar í þessum bæ (ætli þær hafi einhvern tímann heyrt um að fara í bíó...?) þá ákvað ég að skella mér bara með :)
Á morgun er semsagt bóklegur tími í sveppatínslufræðum og svo förum við útí skóg á sunnudaginn að tína sveppi. Þá eigum við að hafa öðlast sjálfstæði og hugrekki til að tína okkar eigin sveppi og eigum ekki að spyrja kennarann mikið. En það er mjög mikilvægt að allir takið með sér "fika". Kannski bara saft & bulle. Jafnvel :)
Gaman gaman.. ég hlakka til! Haha.. Mest hlakka ég til að stúdera skrítna svía.. þetta getur nú varla klikkað?! :D

Jæja, það er víst kominn háttatími á mig. Svaf endalaust illa síðustu nótt, mig dreymdi bara hunda með augun útúr hausnum og móðursjúka eigendur og ég klúðraði öllu. Úff!

Góða nótt :)

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar