lördag 31 juli 2010

Long tæm nó skrif...

Sit hérna heima í Övik og læt mér leiðast og er einmana. Þetta er nánast í fyrsta sinn sem ég hef haft tíma og orku í það. Yfirleitt finnst mér bara gott að vera ein og hvíla litla þreytta hausinn minn, en núna langar mig að hitta einhvern og gera eitthvað!

Var að vísu í Sollefteå hjá Isabelle í gær en það var ekki eins skemmtilegt og ég hafði vonast til. Við hættum semsagt við að fara á fimmtudagskvöldinu, Isabelle var slöpp og vildi ekki fá okkur, en ég ákvað að drífa mig ein í gær í staðinn.
Hún og vinnufélagar ætluðu að hittast og snarla saman og fara svo út á lífið, það var einhver útihátíð í gangi í bænum.

En þessi kvöldhittingur. Guð minn góður. Þetta voru allt dýralæknar eða dýrahjúkkur. Barnlaus að vísu - EN.. allir með hund með sér. Sem ung (?) og barnlaus stúlkukind hef ég oft orðið pínu þreytt á því í matarboðum þegar ekki er hægt að halda uppi samræðum við foreldra vegna barnanna þeirra sem annað hvort eru suðandi tuðandi vælandi skælandi ælandi eða að gera eitthvað af sér. Eftir þetta kvöld mun ég aldrei aftur pirra mig á þessu. Í þessu boði var ekki hægt að halda uppi samræðum útaf.. nú læt ég vaða.. helvítis bölvuðum óöguðum geltandi illalyktandi og illa uppöldum hundkvikindum! Endalaus slagsmál og áflog og sveittir eigendur að veltast um gólfin við að reyna að ná taki á sínu hundkvikindi til að skamma það. Til þess eins að sleppa því aftur inní hrúguna af hundum. Til þess eins að svitna enn meira við að reyna að ná taki á því aftur. Og aftur. Og aftur. Og aftur. Og svo var einum hent út. En þá tók annar við. Og svo kom nýr gestur. Með nýjan hund. Og allt vitlaust.
Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Eitt dæmi. Reynið að sjá þetta fyrir ykkur: Nýi ofvirki risavaxni hvolpurinn hennar Isabelle, á stærð við íslenskan fjárhund, uppí gluggakistu (!) að hoppa uppá rúðuna til að reyna að komast í gegnum gluggann og út að veiða hænur. Með 3 geltandi hunda fyrir neðan gluggakistuna sem vildu líka vera með og 4 misdesperate eigendur að reyna að hafa stjórn á sínu dýri.

Ég held ég velji þá frekar fjölskylduboðin með óþægu börnunum heldur en dýralæknaboðin með brjáluðu hundunum!

Nú skil ég líka hvernig tilfinning það er þegar vinkona manns eignast barn og skyndilega er ekki lengur hægt að ná sambandi við hana. Isabelle var gjörsamlega sambandslaus útaf nýja hvolpinum, var einhvers staðar ein inní herbergi með kvikindinu hálft kvöldið á meðan ég var að reyna að spjalla við hitt hundafólkið. Þegar hún kom svo loksins fram þá varð hún að sitja með villidýrið í fanginu restina af kvöldinu og var þar af leiðandi alveg jafn sambandslaus og þegar hún var inní herbergi.

Eftir nokkrar klst af hundaáflogum voru allir orðnir svo þreyttir að það var ekki hægt að fara út á lífið.

Skrítið kvöld.

Kom svo heim til Övik áðan og hef látið mér leiðast síðan. Er boðið í grillveislu hjá vinnufélaga í kvöld, en þar sem ég er bíllaus og þetta er um 10-15 km fyrir utan bæinn lítur ekki út fyrir að ég komist þangað. Magnað.
Kannski ég kaupi mér bara gamlan Audi :)

L8er

onsdag 28 juli 2010

Morgunkveðja

Geisp. Eftir fjögurra tíma svefn síðustu nótt og vondan svefn í nótt útaf partístandi í blokkinni er minns þreyttur. Mjöög þreyttur.

Langar bara enn og aftur að þakka hundaeigandanum sem hringdi í mig í gær morgun kl 5.40 til að tilkynna mér að hundurinn sinn hefði slasast en hún vildi ekki koma inn á vaktatíma. Neihei.. en takk fyrir að láta mig vita. Spes.

Jæja það verður víst eitthvað minna um fréttir héðan í dag. Ég og Marlene ætlum að reyna að heimsækja Isabelle í Sollefteå beint eftir vinnu - þeas ef það verður ekki mikil yfirvinna.

Geisp.

tisdag 27 juli 2010

Næturkveðja

Afsakið bloggleysi síðustu daga, þeas ef einhver er þá yfirhöfuð að lesa þetta. Annars bara tek ég afsökunina tilbaka og geymi til betri tíma. Þetta er eins og með missisippíin.. ekki gott að eyða þeim í óþarfa.

Ég hef verið gríðarlega upptekin í vinnu, kom heim um hálf tíu í gær og nennti ekki að blogga. Í dag er ég á vakt og var að skrifa skýrslur í vinnunni til ca 20. Ekki nema einn sjúklingur kominn og hann var dauður, svo það hefði nú ekki getað verið auðveldara. Alveg þangað til ég var að fara heim - eins og vanalega þegar ég er á vakt. Var komin úr klinikbuxunum þegar bóndi nokkur hringdi sem átti belju sem hafði spýtt aftanúr sér leginu. Ok ég kem. Sagði ég og skellti á. Áttaði mig svo á því að ég hef séð þetta framkvæmt einu sinni á ævinni. Nota bene: SÉÐ þetta framkvæmt. Ekki framkvæmt sjálf. Og það eru ca 2 ár síðan. Hm.
Hringdi í smá stressi í Emmu stórdýralækni, hún útskýrði hvað ég ætti að gera og ég skrifaði lítinn minnismiða. Dríbbaði mig svo í sveitina og kíkkaði aðeins á svindlimiðann minn áður en ég fór inn. Þóttist svo vera ægilega klár og held það hafi bara gengið nokkuð vel. Tókst að troða öllu heila draslinu inn og loka fyrir og allir ægilega ánægðir. Svo flýtti ég mér heim og slökkti á vaktasímanum og vona að beljan sé enn á lífi ;)
Nei nei, smá ýkjur. Það er kveikt á símanum. Og beljan virtist hress. Allavega er ég stolt af mér að hafa komið þessu inn. Og mjög svo ánægð með alla boxþjálfunina í vetur og vor! Veitti ekki af smá vöðvum.

En nú er kominn háttatími og rúmlega það. Vaknitími eftir 5 tíma. Hlakka til á morgun. Not. Kannski ætti ég samt að slökkva á símanum - væri synd að eyðileggja þessa fáu tíma.

Góða nótt!

söndag 25 juli 2010

Söndagsmys :)

Nammnamm. Var að ljúka við alveg hreint dásemdar kvöldmat. Ótrúlegt að mér skyldi ekki takast að klúðra þessu. Alltaf þegar ég kaupi eitthvað gott og geri mér miklar vonir og væntingar þá fer allt í vaskinn. Bjóst þess vegna ekki við því að þetta myndi takast hjá mér, en þar af leiðandi varð þetta ennþá betri máltíð fyrir vikið! Eldaði mér nautalund með kantarellusósu og ferskum kantarellum. Namminamm! Bara ágætis kvöldstund, nema ég klikkaði á rauðvíni! Skandall.

Annars hefur mér gengið alveg hreint framúrskarandi vel að gera ekkineitt um helgina. Eiginlega bara betur en ég bjóst við. Fór að vísu í bæjarleiðangur í gær til að reyna að redda linsum og það gekk nú álíka vel og allt annað í þessum litla lorta-bæ = illa. Í Övik eru 6 linsubúðir. Hversu margar eru opnar á laugardögum? Núll. Til að reyna að dempa aðeins gremjuna yfir þessu skrapp ég í búðir og skoðaði föt eins og ég ætti lífið að leysa í nokkrar klst. Endaði svo daginn á því að fara í matarbúð og ætlaði svo að skella mér í strætó heim með matarpokana. Eftir klst bið í strætóskýlinu læddist að mér illur grunur. Bara grunur samt, því í Övik eru engir auglýstir strætótímar. Amk ekki í linje 1, 6 og 22 sem eru þær línur sem ég get tekið heim. Í hinum skýlunum voru upplímdir pappírsseðlar og ég fór að kíkja á þá og það renndi enn frekari stoðum undir minn illa grun. Allir þeir strætóar sem var plan fyrir hættu að ganga á laugardögum milli 14 og 15. Klukkan var þarna orðin rúmlega 16. Eftir að hafa beðið soldið lengur, hringt í Ívar og öskrað yfir þessum hörmulegasta bæ veraldar neyddist ég til að horfast í augu við það að það myndi ekki koma neinn strætó og ég varð því enn og aftur að plampast upp brekkurnar og alla leið heim með þunga innkaupapoka. Arrgh arrggh og aftur arrrggh! Héðan í frá stíg ég ekki fæti mínum niður í þennan bæ. Punktur og Pasta. Nema nottla á morgun. Þarf víst að endurtaka linsuleiðangurinn. Demit.

Í dag var svo dagurinn sem ég gerði ekki neitt. Það hellirigndi nánast allan daginn, svo þetta var eiginlega fullkominn geraekkineittdagur. Búin að hanga á netinu og facebook og núna veit ég allt um alla. Loksins. Var farin að hafa áhyggjur af því að ég hefði misst af svo miklu. Hefði varla getað byrjað nýja vinnuviku án þess að vita hverjir þrifu íbúðina sína, hverjir bökuðu köku, hverjir fóru í útilegu og hver átti sætasta barnið. En núna er það allt komið á hreint. Hjúkket.

Fór að vísu í smá labbitúr áðan eftir að rigningin gat ekki meir. Skrapp hérna upp í skóginn fyrir ofan húsið mitt, en þangað hef ég aldrei farið áður. Endaði ekki betur en svo að ég varð ofurtaugaveikluð og myrkfælin (samt var ekki myrkur) því ég var eina manneskjan á ferli þarna. Byrjaði vel samt, fann sætan lítinn fuglsunga og sá dádýr. Svo fann ég líka aðalbláber. Svo fann ég skítahrúgu frá dýri sem ég vissi ekki hvað var. Þá fór ég að ímynda mér að það væru bjarndýr í skóginum. Og að þau væru líka sólgin í bláber. Og væru öll að bíða bakvið næsta runna. Og svo mundi ég að það eru höggormar í svíþjóð. Þeir voru líka á bakvið hvern stein og hverja grein að bíða eftir að ráðast á mig. Maður á að vera í stígvélum. Svo eftir að fallegi skógurinn varð allt í einu uppfullur af vondum dýrum, jah auðvitað fylltist hann þá líka af vondu fólki. Einhvers staðar verða vondir að vera og þarna hafði ég akkúrat fundið staðinn þar sem öll vondu dýrin og vondu mennirnir í Övik búa. Obbobobb. Svo ég flýtti mér heim og ákvað að héðan í frá skyldi ég bara labba í kringum litla saklausa vatnið mitt þar sem allt góða fólkið labbar með góðu hundana sína. Og stundum eru góðar kisur líka. Jebb.

Þetta voru helstu viðburðir dagsins. Á morgun byrjar ný vinnuvika og ég er ekki alveg búin að ákveða hvort ég sé úthvíld, ofhvíld eða bara ennþá þreytt. Hallast samt frekar að ofhvíld svona miðað við þá staðreynd að ég svaf í 11 tíma fyrri nóttina og 10 þá seinni.

Já nú man ég. Müslíupdate. Nýja draslið var vont, jafnvel verra en það fyrra. Svo nú er hörð barátta - það er ógó vont og ég fæ mér oftast bara lítið.. en ef ég hins vegar myndi fá mér mikið þá myndi það klárast fyrr. Hmm.
Keypti Polarbröd í fyrradag. Hef ekki gert það hingað til, því ég var hrædd um að ég myndi éta allan pokann í einu. Ákvað að leyfa mér það samt núna og gera bara tilraun. Lofaði sjálfri mér að éta bara eina brauðköku á dag. Það gekk bara mjög vel. Í gær. Í dag er ég búin með 3. Ansans. Held ég sé fallin og það verður ekki keypt meira sona :(

Anyways. L8er.

lördag 24 juli 2010

Fleiri sumarfréttir!

Er svona að reyna að setja inn merkilegustu fréttir Íslandsferðarinnar eftir því sem þær rifjast upp fyrir mér.
Tvær skemmtilegar hestafréttir:
Glódís mín fór undir stóðhest í fyrsta sinn! Sólon frá Skáney varð fyrir valinu, þar vonast ég til að fá frábæran reiðhest með snyrtilegum fótaburði - og að sjálfsögðu rauðblesótta hryssu. En af hverju Sólon?
Fyrir langa löngu þegar ég var að fletta eiðfaxa-blaði rakst ég á umfjöllun um Skáney. Þar var mynd af hryssu, Nútíð frá Skáney, sem mér fannst vera það allra fallegasta hross sem ég hafði séð. Þetta var sennilega bara venjuleg mynd af venjulegri hryssu, en samt. Það var eitthvað sem ég féll fyrir þarna...
Einhverjum árum seinna sá ég svo Sólon frá Skáney á Tekið til kostanna á Króknum. Fannst hann svo mjúkur og fallegur og virkaði eitthvað svo þjáll. Komst svo að því að þessi hestur var einmitt undan draumahryssunni minni, henni Nútíð!
Sólon kom svo til okkar á dýraspítalann eftir LM 2006, þar meiddist hann aðeins á sin og var hjá okkur einhverja daga. Þar féll ég ennþá meira fyrir honum, hann var svo ótrúlega þægilegur í umgengni að öllu leyti. Við héldum nokkrum hryssum undir hann á spítalanum og þar var hann svo kurteis og laus við alla stæla.
Í vetur fór ég svo að hugleiða að halda Dísu skvísu. Kíkkaði á stóðhestasíður og sá þar hverja rosa bombuna á fætur annarri, eeeendalaust af hæfileikaríkum ungum stóðhestum sem sprikluðu eins og enginn væri morgundagurinn. Mér féllust eiginlega hendur - þetta var alltof mikið! Og ekki hafði ég séð neinn af þessum hestum live (ekki svo ég myndi eftir amk - svaf nottla eins og steinn í brekkunni á stóðhestadeginum á LM 2008. Flott.)
Svo mundi ég eftir æskuástinni minni :) Spjallaði við Þóru systur sem hefur verið með nokkur afkvæmi undan honum sem henni fannst mjög fín, mjúk og geðgóð hross, svo ég ákvað að skella mér bara á þetta. Hann er svosem engin bomba - en hvað á ég svosem að gera við bombur?? Ég vonast til að fá gott reiðhross með snyrtilegum fótaburði undan þessu pari og held að það ætti ekki að vera ómögulegt :) Og að sjálfsögðu vil ég fá rauðblesótt! Mamma Glódísar var rauðblesótt og Sólon hefur gefið mjög mikið rauðblesótt, svo ég krossa alla mína fingur og tær!
En ég ætti kannski aðeins að róa mig í draumórunum - hún er rétt komin í hólfið, hehe ;)

Skemmtilega hestafrétt nr 2:
Ilmur hans Ívars kastaði rauðtvístjörnóttu folaldi undan Keili frá Miðsitju þann 19. júlí. Því miður var það hestfolald - hún hunsaði allar okkar bænir um hryssu! Þetta er fjórði hesturinn á móti einni hryssu. Skamm Ilmur, skamm! Annað sem hún má skammast sín fyrir er að hún kastaði ca 24 klst eftir að við yfirgáfum Ísland. Hversu týpískt er það?? Haha, svekkelsi aldarinnar!
En gott að allt gekk vel og gaman að fá lítið kríli þó það sé með bibba! ;)

Jæja. Ætla að druslast niðrí bæ og reyna að grátbiðja um linsur. Er með heimsendingarþjónustu til Köben og Ívar sendi pakkann af stað hingað á mánudaginn, en ekkert bólar á linsunum og núna á ég 2 pör eftir. VERÐ að reyna að redda þessu, en held því miður að það sé erfitt að fá linsur í "lausasölu" :/ En annars verð ég óvinnufær þangað til pakkinn kemur...!! Úffpúff..

Ætlaði annars að liggja eins og klessingur í sólbaði alla helgina. Gott plan - fyrir utan að það er ekki sól. Skamm!

L8er

fredag 23 juli 2010

Loksins helgi..!

Ah þvílík dásemd! Mikið hlakka ég til að sofa út í fyrramálið.. vakna... og vera að fara að gera ekki-neitt. Þetta verður fyrsti sofa-út morguninn í fleiri vikur! Sumar"fríið" á íslandi var svo þéttskipað að engin leti kom til greina, enda þurfti að deila tíma á milli tveggja fjölskyldna, barna, hesta, hunds og vina. Nóg að gera semsagt!
Ég gleymdi að segja frá hápunkti síðastliðinna mánaða, en það var þegar snillingurinn hann Guðjón gat bjargað öllum gögnum (lesist MYNDUM) af harða diskinum úr gömlu tölvunni minni sem hrundi í fyrra og allir voru búnir að dæma endanlega dauða og vonlaust að ná myndunum. Mikill missir þar, enda milljón myndir frá mínum fyrstu 4 árum í Köben og því yndislega grallaralífi sem við lifðum þar í byrjun námsins! En semsagt - Guðjón framkvæmdi hið ómögulega og bjargaði þeim allesammen! Allihopa! Jíbbíjey!! Held að maðurinn eigi inni hjá mér ævilangar birgðir af viskí fyrir þetta afrek.. hehe ;)
Svo þarf ég "bara" að sortera myndirnar.. þetta eru núna mörg þúsund myndir í kássu í tölvunni, en skítt með það - tek nokkra góða rigningardaga í það verk. Seinna.

Í dag bar helst til tíðinda að náungi að nafni Hrafn Gilsson "addaði" mér sem vin á facebook. Ég klóraði mér lengi í mínum þreytta haus yfir þessu. Kannaðist ekki við þennan dúdda. Sá svo að við áttum einn sameiginlegan vin sem var Þóra systir. Þá fór ég að hafa áhyggjur af því að hún hefði hitt einhvern sækó gaur í USA sem ætlaði að ofsækja fjölskyldu hennar. Velti þessu lengi fyrir mér.. þar til ég talaði við Þóru og komst að því að þetta eru mammsen og pappsen í HrafnaGilsstræti. Vá. Trega ég :)
Já. Ma og Pa eru semsagt komin á facebook. Hver hefði trúað þessu? (og hver hjálpaði þeim??) Vissi nú ekki alveg hvað mér ætti að finnast um það að hafa foreldrana að sniglast um í mínu sukklífi á fésinu, en áttaði mig svo á því að ég þyrfti kannski ekki að hafa stórar áhyggjur. Þeim finnst msn flókið. Heyrði svo frá Þóru að mamma væri búin að gleyma hvernig maður loggar inn á facebook - og þá fuku nú allar áhyggjur útí hafsauga. Reyniði bara.. þetta mun aldrei takast! Múhahahahaaa...!!

Síðasta merkilega frétt fyrir svefninn: Við Ívar áttum 4 ára ammælisdag í dag :) Skrítið hvað tíminn líður. Skál fyrir okkur!

Núna: Háttatími og sofaút... aaaaahhhh...!

L8er

PS1: Sorrí ma og pa fyrir facebook-grínið, varð bara að fá að stríða smá!
PS2: Kannski áttum við 4 ára ammæli í gær. Munum ekki alveg *blúbb-blúbb*. En allavega áttum við ammæli... einhvern dag. Punktur. Og skál.

torsdag 22 juli 2010

Hvar á ég að byrja...

Ekki hugmynd.. það er afleitt að taka svona langa bloggpásu, því þá er svo erfitt að byrja aftur. Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera stuttorð, svo bara tilhugsunin um að ætla að segja frá síðastliðnum 20 dögum fær mig til að loka mig inní kústaskáp og skæla.
En ég kom útúr skápnum (ehe ehe) áðan og ákvað að brjóta ísinn.

Byrja bara á stuttri skemmtisögu. Ég og Marlene, nýja hjúkkan (sem er rosa rosa fín!), ætluðum að gera okkur glaðan dag og fara og fá okkur pítsu áðan. Hún er búin að vera hér í 4 daga, ég að vísu lengur en hef ekki farið mikið út af klinikinni, svo við vissum ekkert hvert við ættum að halda í þennan leiðangur. Auluðumst eð niðrí bæ og fundum pítsastaðinn MammaMia. Ákváðum að skella okkur inn, fengum að vísu smá bakþanka þegar við sáum staðinn - virkaði óþarflega fínn. En jæja, létum vaða fyrst við vorum komnar inn. Var vísað til borðs af þeim mest pirrandi þjóni sem ég hef á ævinni lent í - ekki smá kreistur að reyna að vera fyndinn! Og gerði grín að því að Marlene væri frá Vilhelmina (þar búa sko um 4 þús manns) EINS OG Övik sé einhver stórborg.. ohhhh pirrandi!! Hélt því svo fram að ég væri þaðan líka og þar af leiðandi væru einu íbúar Vilhelmina á staðnum.. úúúú einmitt.. af því að þú býrð í stórborg?! Jú skill mí? Ó. Þol. Andi. Anyways, ákváðum að leiða þetta pent hjá okkur og kíkkuðum á matseðilinn.. hólí shit. Margaríta kostaði 100 sænskar og var ódýrasta pítsan. Einmitt. Og ekkert úrval af mat eða neinu. Ojbarasta. Og þjónninn hélt áfram að vera pirrandi; Marlene spurði hvort það væri klósett þarna. "Nei. Ekkert klósett" eheeee fyndinn. Not.
Eftir þetta langaði okkur að fara, en kunnum ekki alveg við það.. ég fékk þarna þá snilldarhugmynd að láta eins og ég væri á vakt og segja að ég hefði fengið akút útkall. Marlene fannst það nú soldið gróft þar sem ekki væri eitt sannleikskorn í þessu.. "en ég get bætt við að ég sé dýralæknir..? Það er satt..." Haha.. við sættumst á þetta, svo þegar aulinn kom að borðinu til að taka við pöntunum, þá var ég aaagalega bissí í símanum og veifaði honum eitthvað frá og tilkynnti svo (alveg að springa úr hlátri inní mér) að því miður yrðum við að fara í útkall en við myndum koma aftur... je riiight. Lúúúser!

Fundum svo nýjan stað þar sem pítsa og gos kostaði 70 kall. Takk fyrir takk. Og hann er hérna nánast beint fyrir utan hjá mér. Mí læk :)

Gaman að þessu.

Annars er bara búið að vera klikkað að gera, þetta er eiginlega í fyrsta sinn síðan ég kom á sunnudaginn sem ég hef einu sinni haft tíma til að hugsa um að blogga (fyrir utan tímann sem ég sat inní kústaskáp).
Ég lenti hérna á sunnudaginn eftir enn eina snilldarhugmyndina, sem var sú að vera í bænum í reykjavík til 4 og fara svo beint til keflavíkur í flug kl 5. Frábær hugmynd Elsa, frábær. Alveg með þeim betri. En það var gaaaaman í bænum! Við ívar fórum út að borða með Óskari og Ásdísi í þvílíka matarveislu að ég verð södd bara við tilhugsunina. Svo voru Páll Óskar og Haffi Haff að spila og ekki gat ég nú sleppt því! Þvílik snilld!
En ekki jafn mikil snilld að ferðast daginn eftir, úrvinda og þunn. Úffpúff. Svo endaði ferðin á því að ég kom með flugrútunni (já það er líka svoleiðis hérna megin) niðrí miðbæ í Övik og ætlaði að skella mér í strætó heim. Þá komst ég að því að í Övik keyra engir strætóar á sunnudögum. Ha? Já. Það er satt. Svo litla þunna þreytta sveitta leiða einmana og örmagna ég, þurfti að LABBA upp allar brekkurnar (35 mín labb) heim til mín með allan farangurinn í steikjandi sól. Aaaaaarrrrrgggghhhhhh!!! Enda tilkynnti ég ívari það um kvöldið að ég ætlaði aldrei að flytja hingað. Haha ;)

Svo er búið að vera klikk að gera í vinnunni, langir langir dagar, ein vakt og lítill svefn síðan ég kom, svo minns er ennþá úrvinda og núna komin með hósta og hálsbólgu. Og ekki dirfast að segja að þetta sé sjálfri mér að kenna! Ekki var ég að segja Palla og Haffa Haff að vera í bænum akkúrat þetta kvöld.. díses.
Hlakka til um helgina, ætla bara að soooooofa og hafa hygge með sjálfri mér! :D

Jæja. Þá er ég vonandi búin að brjóta ísinn og get farið að blogga aftur. Og Þóra - hvað ert þú að tuða yfir mínu bloggi? Má ég spyrja hvar öll meilin frá þér eru?? ;)

L8er

torsdag 1 juli 2010

Fríið nálgast óðfluga

Tæpur sólarhringur í að ég láti mig hverfa héðan og fari til Köben að knúsa kallinn minn og held svo til elsku AK á laugardaginn! Jibbíjey!!
Þetta gæti að vísu orðið ansi strembinn sólarhingur. Var í vinnu til 19.30 í dag (og við fáum enga yfirvinnu borgaða), er á vakt til 08.00 í fyrramálið, fer þá í vinnu og fer svo beint úr vinnunni á völlinn um 16. Fyrir þann tíma þarf ég að hafa afgreitt alla sjúklinga og skrifað allar skýrslur (sem tekur á venjulegum degi svona 2 tíma í yfirvinnu). Þetta verður stress. Mikið verð ég fegin þegar ég get sest um borð í vélina á mrg og andað út. Að vísu til þess eins að anda aftur inn og halda niðrí mér andanum í klst eftir að hún hefur sig á loft. Jebb, sama flugfélag og síðast (þeas eina flugfélagið sem fyrirfinnst hér) og sennilega álíka traustvekjandi flugvélargrey.
En allavega - þegar ég kemst í SAS vélina ætti ég að geta slakað á! Hlakka til! Og hlakka til að knúsa kallinn minn! Og sofa í rúminu mínu! Verst að kettirnir verða farnir í pössun þegar ég lendi, svo ég næ ekki að knúsa litlu ormana mína.. :/

Ágætis dagur í vinnunni í dag, bara nokkuð sátt við eigin frammistöðu. Kannski af því að ég fékk enga erfiða sjúklinga - en samt, maður verður að muna að gefa sjálfum sér stig! :P Held ég hafi ekki gert neitt aulalegt í dag. Sveimér þá...! Annað stig handa mér :)

Er eitthvað voðalega andlaus þessa stundina, man ekki hvort það gerðist neitt spennandi í dag. Man eiginlega mest lítið hvað gerðist í dag yfirhöfuð (kannski þess vegna sem ég held ég hafi staðið mig svona vel..!)

Þetta verður sennilega síðasta bloggið í bili, fer nú ekki að skrifa á problem-síðuna mína á akureyri! ó nei.. vaktasíminn.. aaaaaaaaah

Haha... hjúkket. Bara Frida í vinnunni að biðja um eitthvað símanúmer :P Krossa alla mína fingur og tær að það verði ekki vesen í kvöld/nótt.

Æjj. Var að klára síðasta hnetunammið fyrir næstu 2 vikurnar :(

Ætla að taka með mér hákarl hingað, svíarnir vilja endilega að ég smakki surströmming og ég ætla þá að vera með mótleik! Múhahaha...! James hefur smakkað bæði og segir að hákarl sé MUN verri.. múúúúhahahahah!!

Jæja. Farin að einbeita mér að því að stara á símann og segja honum að hringja EKKI.

Ég sný aftur eftir 2 vikur ;)

Elsa í Övik

PS. Ég afsaka að hafa svikist um múslíupdate, en það vildi svo óheppilega til að það var nóg eftir í gamla pokanum útá súrmjólkina í morgun. Þið sem bíðið spennt þurfið að bíða eitthvað lengur. :P