söndag 13 mars 2011

Vikan sem hvarf...

Síðasta kvöldið með Tinnu og Bergsteini í kvöld - held að ekkert okkar skilji hvernig þessi vika leið svona hratt! En svona er þetta víst þegar maður skemmtir sér!
Við höfum brallað heilan helling eins og vanalega, eftir fiskveiðidaginn kom snjókomudagur sem við eyddum í Paradísarbaðinu svokallaða, hálfgerðum vatnsgarði hérna í Övik. Hvorki meira né minna en 4 rennibrautir, þar af ein stærsta rennibraut svíþjóðar! Börnin entust í heila 5 tíma oní þessu stuð-baði, voru öll blá og marin á hnjám og mjöðmum eftir endalausar rennibrautarferðir, og við Ívar orðin vel meyr í pottinum (sem var nú ekki heitari en svo að maður var komin með hroll eftir allan þennan tíma). Góð sundferð sem allir voru mjög ánægðir með :)

Daginn þar á eftir þurfti ég að vinna, en Ívar og krakkarnir skelltu sér á skauta á utanhúss svelli í glaðasólskini, pínu leiðinlegt að missa af því - þó ég sé nú hálfgerð belja á svelli og skautar ekki mín sterkasta hlið, ehee.. ;)

Á föstudeginum var aftur skýjað og snjókoma og við skelltum okkur í keilu fyrst veðrið vildi ekki leika við okkur. Þar var mikil keppni í 2 klst og sumir tapsárari en aðrir (ég haaaata að tapa í keilu!!!). En góður dagur engu að síður... :)

Bergsteinn í keilu

Sýnist Tinna vera að plana næsta múv í huganum...

Einbeittur!

Í gær vöknuðum við snemma í glampandi sól og blíðu, pökkuðum niður nesti og nýjum skóm og skelltum okkur til Solberg sem er skíðasvæði um klst bílferð héðan. Svæðið stóð nú ekki alveg undir mínum væntingum, ég bjóst við aðeins fleiri brekkum, eeen góður dagur engu að síður :) Við skíðuðum þarna allan eftirmiðdaginn, mestallan tímann í sól - þegar skýin komu þá kipptum við því í lag með smá sólardansi ;) Börnin voru nú hálf skömmustuleg fyrir hönd okkar Ívars - ekki alveg sannfærð um að taka þátt í sólardansinum okkar þarna í miðri skíðabrekku, hehe! En það er nú bara þannig að sólardansinn klikkar ekki og eftir smá tíma var komin glampandi sól aftur! Og hana nú!
Börnin stóðu sig enn og aftur ótrúlega vel á skíðunum, voru farin að skíða á fullu niður allar brekkur eftir daginn!
Á leiðinni heim (og líka á leiðinni uppeftir) keyrðum við svo í gegnum svæði þar sem hreindýrahjarðir ganga lausar. Ég sagði krökkunum að hafa nú augun opin og reyna að sjá hreindýr - og hafði ekki fyrr sleppt orðunum þegar skógurinn í kringum okkur var beinlínis stútfullur af dýrum! Fleiri hundruð dýr á ferðinni þarna rétt við veginn - og sum uppá vegi líka.

Hreindýr í vegkantinum

Team Æðisleg komin í brekkuna ;)

Hver eru sætust?? ;)

Fallega grett uppí sólina í nestispásu, hehe ;)

Fallegt á toppnum

Hressar skíðakonur :)

Og að lokum mynd dagsins: Ívar að reyna að mynda hreindýr... híhí ;)

Í gærkvöldi var svo eurovisionkeppni svía og við héldum pítsu- og nammipartí í tilefni þess. Því miður vann ekki okkar lag, eeeen gott kvöld engu að síður :) (held reyndar að tinna hafi verið pínu skotin í gæjanum sem vann, enda sætur hjartaknúsari þar á ferð!)

Í dag vorum við að íhuga aðra sundferð, en þegar við fórum á fætur í glampandi sólskini og um 0 gráðu hita var nú ákveðið að eyða þessum degi utandyra! Við skelltum okkur útí garð og lögðumst í heilmiklar snjóhúsasmíðar! Við Ívar erum nú einhvern veginn alltaf hálf stórtæk í þessum húsagerðum okkar (sbr. piparkökuhúsið um daginn) svo krakkarnir þreyttust á okkur eftir soldinn tíma og gerðust moldvörpur í staðinn fyrir eskimóar... grófu endalaust af holum og göngum í stóra skaflinum fyrir utan húsið.
Það var alveg frábært veður, sól og blíða, og allir kófsveittir að brasa. Marlene og Christer, okkar yndislegu grannar, komu svo yfir með pikknikk-körfu með pylsum og pylsubrauði og meðlæti - höfðu fylgst með öllu brasinu útum gluggann og datt í hug að við værum orðin svöng! Na-hajs! :D
Eftir margra klst bras tókst okkur Ívari að ljúka við þakið á snjóhúsinu - og þá var farið í snjóslag!
Núna erum við komin inn - þrjú tonn af blautum fötum hanga til þerris um alla íbúð.. og nú hefði verið gott að eiga þurrkara!!
Ívar skjögrar hér um gólf og segist vera orðinn gamall - stirður eftir allt þetta útibras - og ég verð eiginlega að vera sammála! Jiminn hvað maður er orðinn gamall eitthvað...!

Við Tinna byrjaðar á grunninum að húsinu

Bara komin ansi langt...

...en þá gáfust börnin nú upp á þessu einhæfa húsabrasi og fóru að grafa holur í staðinn

Bergsteinn í holumokstri... kominn með slatta af freknum (enda sætastur þannig að eigin sögn, haha!)

Að lokum tókst þetta hjá okkur! Heilt snjóhús risið! :)

Þessi vika hefur verið ótrúlega skemmtileg og endurnærandi - börnin í góðum gír og allir hressir og kátir, veðrið gott og nóg hægt að gera hérna í sveitinni okkar. Ég er allavega strax farin að hlakka til næstu barnaviku, hvenær sem hún verður nú!

L8er

tisdag 8 mars 2011

Veiðitúr












Veiðiferð dagsins var alveg meiriháttar skemmtileg - fyrir utan þá staðreynd að við fengum ekki einn einasta fisk! Ég er nú vön þessu aflaleysi, en hafði miklar væntingar til Bergsteins... Því miður buðum við bara fiskunum uppá dýrindis hlaðborð með maísbaunum, lirfum og möðkum sem þeir týndu af önglunum okkar án þess þó að veiðast. Heimsku fiskar!
Og það versta var að það var maður við hliðina á okkur sem var töluvert heppnari en við... svo ekki var hægt að kenna fiskleysi um.
En dagurinn var nú samt góður! Og hana nú. Skítt með fiska. Hver vill svosem veiða þessi slímugu kvikindi? Ekki við.
Það var sólskin og fallegt veður aftur í dag og mjög fín aðstaða við vatnið, lítill kofi með eldstæði bæði inni og úti. Eftir að fiskarnir voru orðnir saddir og hættir að stela ormunum okkar ákváðum við að við ættum skilið mat líka. Kveiktum upp bál úti og grilluðum pylsur og kjötbollur (sumir borða ekki pylsur), gæddum okkur á bolludagsbollum (sem heppnuðust!!!) og heitu kakói. Namminamm!
Gerðum svo einn eina tilraunina til að veiða, en þá voru fiskarnir meira að segja hættir að sýna beitunni neinn áhuga, svo þá gáfumst við nú upp.

Sumir að rembast við að bora gat - aðrir að púkast!

Bergsteinn tekinn við. Það var ekkert grín að bora þessar holur, ísinn var heill metri að þykkt!

Bergsteinn að græja veiðistöngina

Ívar og Tinna byrjuð að veiða

Kveikt bál til að grilla




Matartími!

Litli sæti kofinn

Yndislegur dagur :)

L8er


måndag 7 mars 2011

Allt á fullu í Haffsta!

Kominn tími á nýtt innlegg? Já ég held það bara.

Hér hefur gerst svo margt og mikið undanfarið að það yrði alltof langt að segja frá því öllu! T.d. skelltum við ívar okkur til gautaborgar í byrjun febrúar til að heimsækja pabbagamla. Það var frábær helgarferð, góður matur (og mikill!) bæði heima og á veitingahúsi, klassískir tónleikar, blúsdjamm á jazzpöbb í bænum, melodifestivalen að sjálfsögðu; bara sannkölluð lúxushelgi!

Ekki nema tveimur vikum seinna komu ma og pa svo hingað til okkar og fengu að testa -27 gráður! Brrr....! En það var nú ekkert sem smá kakó með stroh gat ekki reddað! Hér fórum við meðal annars í mjög litla fjallgöngu (eiginlega meira hólagöngu), skelltum okkur á skíði (mamma sat með bók í skíðaskálanum) þar sem pabbi átti glæsileg tilþrif bæði í lyftunni og brekkunni - ekki meir um það hér, híhí... fórum út að borða á strútabúi hérna rétt hjá og ýmislegt fleira. Virkilega góð heimsókn og það eina sem skyggði á var að ég fékk smá flensuskít og var ekki alveg á toppnum alla daga. En ekkert sem TREO gat ekki bjargað.

Við pabbi í fjallinu

Að vísu lagðist ég í rúmið í 2 daga eftir að þau fóru, með hita og hor, en það var ekkert á við hann Ívar minn. Hann ákvað að verða veikur í fyrsta sinn síðan ég kynntist honum og lá með bullandi hita í viku. Ég var farin að íhuga að hringja á lækni, en þá tókst honum að standa upp. Hjúkket.

Næsta heimsókn sem við fengum var hún Silja sem skellti sér hingað til okkar, m.a. til að vera í praktík á spítalanum í viku. Yndislegt að hafa hana hérna! Bara verst að við Ívar vorum ekki beint herra og frú Hressmann, en hún fékk þó amk að upplifa margt í vinnunni. Meðal annars legbólguaðgerð á tík, geldingu á hundi, aðstoðaði við að fjarlægja æxli, saumaði saman dýr eins og herforingi, gelti ketti á færibandi, hjálpaði að draga kálf og sauma hest og vikan endaði á að stór hundur fékk hjartastopp og dó á skurðarborðinu hjá okkur eftir aðgerð, svo þar fékk hún að upplifa lífgunartilraunir (sem því miður voru árangurslausar).
Síðasta daginn var svo keypt terta handa okkur Silju, helmingur tileinkaður mér því ég átti ammæli og helmingur Silju því hún hafði verið svo dugleg að hjálpa til á spítalanum! Gaman að því :)
Sem sagt viðburðarrík vika! Við skuldum henni að vísu gott djamm, vorum semsagt takmarkað hress, en stefnum á helgarferð til Köben til að bæta úr þessu! ;)

Í gær (sama dag og Silja fór) komu svo Tinna og Bergsteinn hingað og ætla að vera hjá okkur í viku vetrarfríi. Við skelltum okkur á skíði í dag og þau stóðu sig eins og algjörar hetjur! Hafa nú ekki oft farið á svigskíði, en voru farin að renna sér niður "fullorðinsbrekkurnar" í lok dags. Veðrið var frábært, nokkrar plúsgráður og glampandi sólskin í allan dag! Hefði ekki getað verið betri dagur, allir hressir og kátir og ekkert drama þrátt fyrir nokkrar byltur! ;)

Bergsteinn, Tinna og Ívar á toppnum
Hádegispása í yndislegu veðri!
Tinna á fullu :)

Á morgun stefnum við svo á ísveiði, ætlum að reyna að fá lánaðar græjur til að bora gat og vonandi getum við veitt okkur eitthvað í matinn. Annars er stefnan að fara meira á skíði í vikunni, kannski prófa nýtt svæði, skella okkur í sund, kannski á skauta.. og vonandi upplifa fullt af skemmtilegum ævintýrum saman! :)

Set vonandi inn fleiri fréttir af okkur í vikunni - ef það verður ekki of mikið að gera! ;)

L8er

söndag 23 januari 2011

Á skíðum skemmt' ég mér trallalala :)

Já það höfum við svo sannarlega gert í dag. Fórum á nýjar slóðir í stærstu brekkur sem við höfum komist í hingað til og bara hægt að ná ansi góðri ferð! Ótrúlega fallegt útsýni, bjart og fallegt veður og ekki "nema" svona 10 mínusgráður. Hérna heima voru hinsvegar -16 svo við völdum greinlega réttan stað til að skíða!

Fallegt útsýni á toppnum!


Ég sakna nú soldið kallsins míns í þessu skíðabrasi, finnst eitthvað vanta þegar hann er ekki með. Sá kall í alveg eins skíðaúlpu og buxum og Ívar á og íhugaði í smá stund að skella mér bara heim með honum... þar til ég sá að hann var með ÞRJÚ börn. Þá ákvað ég að ég gæti haldið út í 2 daga í viðbót og beðið eftir míns eigins kalli ;)
Ætti nú reyndar að vera að laga til og þrífa.. humm hummm... skemmtilegra að hafa pínu fínt þegar hann kemur loksins. Bara því miður ekki mín sterkasta hlið. Sennilega meira búið að líkjast svínastíu en mannastíu hjá mér þessar vikur. En ég er allavega búin með risa-uppvaskið. Bara eftir að ryksuga smá ;)
Sennilega lýsandi fyrir dugnað minn í húsverkunum að ég þurfi að hringja í Ívar til að spyrja hvar gólftuskan væri eiginlega..... komst þokkalega upp um mig þar!

En jæja, tölvan að verða battlaus. Kannski verður minna um skrif núna eftir að kallinn kemur. Veit ekki einu sinni hvort neinn sé að lesa þetta. Haha. Athyglisvert. Ætti kannski að prófa að skrifa í næstu færslu að ég sé ólétt og gá hvort ég fái viðbrögð eða hvort ég sé í alvöru bara að skrifa einkadagbók á netinu..!

L8er

lördag 22 januari 2011

Winter Wonderland

Í morgun komst sjónvarpið mitt loksins í lag, það er löng saga að segja frá öllu brasinu í kringum það, en í stuttu máli þá pöntuðum við internet og digital sjónvarp í byrjun nóvember og þetta var - eftir mööörg símtöl og að lokum eitt brjálæðiskast - að komast í lag áðan! En nú ætti ég að geta horft á handboltann, þeas þá leiki sem eru sýndir í sænska sjónvarpinu, í aðeins betri gæðum en í tölvunni. Gaman! :)

Það var glampandi sól í allan dag, en mér tókst að sjálfsögðu að hangsa þar til sólin var sest bakvið trén og SVO drulla mér í göngutúr. Týpískt. En gott veður engu að síður og fallegur dagur. Verst að það eru snjósleðar bókstaflega útumallt.. langar líka!!! Maður heyrir suðið í þeim úr öllum áttum, nánast eins og að vera inní býflugnabúi. Nema snjósleðabúi.
Fallegi fallegi vetrarskógurinn minn :)

Núna er svo planið að kúra fyrir framan sjónvarpið restina af deginum og reyna að ná úr mér kvefskít vikunnar. Búin að vera slöpp og hóstandi alla vikuna og nú finnst mér þetta vera orðið ágætt. Stefni semsagt á það að vera orðin frísk á morgun, því þá stendur til að fara á skíði með yndislega skíðagenginu mínu:

Þessir litlu ormar tilheyra tveimur sem vinna með mér og hafa verið dugleg að bjóða mér með á skíði. Nýjasti bestasti vinur minn er 4 1/2 árs pjakkurinn á endanum - þessi með snjókúluna! :D Á morgun er planið að skella okkur á nýjar slóðir og prófa aðeins stærri brekkur! Það er ótrúlega gaman að skíða með þessum gríslingum, þau eru svo dugleg - plata mig með í allskonar offpist ævintýri og stökkpalla sem ég ræð ekkert við.. haha! Hlakka reyndar til þegar Ívar kemur og getur farið í þessar ævintýraferðir með þeim og ég get haldið mig bara í sléttu troðnu brekkunum, hehe ;)

Jæja, ætla að einbeita mér aðeins að sjónvarpinu :)

L8er

onsdag 19 januari 2011

Stórleikur hjá mér.. já og landsliðinu.

Kom heim úr vinnu áðan eftir 10 tíma vinnudag, vinkaði í Júlíus sem sat í svefnherbergisglugganum þegar ég labbaði framhjá, fór inn svo beint í eldhúsið að vaska upp og græja kvöldmat. Fannst ég heyra einhver skrítin hljóð, en var að vaska upp svo ég var ekki viss. Velti þessu fyrir mér í smástund en ákvað svo að kettirnir hlytu að vera að brasa eitthvað. Eftir nokkrar mínútur kviknaði svo á heilanum á mér.. KETTIRNIR! Ég hafði ekkert séð þá síðan ég kom inn. Fattaði svo að Júlíus hafði setið í SVEFNherbergisglugganum. Og fattaði svo að ég loka alltaf svefnherberginu þegar ég fer í vinnuna á morgnanna...... úbbbbbsííí! Dreif mig að opna og hleypa frekar reiðum (og svöngum!) ketti fram.. en enginn Albert. Fattaði þá að ég hafði náð í vinnuföt inní gestaherbergi í morgun.. og hef alltaf lokað þangað inn líka... Tvöfalt úbbsííí og tvöfalt reiðari köttur sem kom útúr því herbergi!
Kattagreyin hafa semsagt mátt dúsa í sitthvoru herberginu í allan dag, matar-, vatns- og kúkakassalausir!
Ég var að vísu þreytt í morgun, en eru engin takmörk??

lördag 8 januari 2011

Nýja sængin


Sá sem var fyrstur til að prófa nýju risastóru flöffí sængina sem við Ívar fengum í jólagjöf var að sjálfsögðu Albert. Hann var mjög ánægður með þessa jólagjöf. Besta sem hann hefur fengið lengi!

Héðan er gott að frétta. Búin að lækna (eða reyna) 2 kýr og einn hund. Í gær var ég dr. Dauði sem er aldrei gaman, fékk 2 símtöl og bæði voru beiðnir um akút aflífanir. En svona er þetta, það er víst ekki hægt að lækna alla. Í dag hef ég ekki verið dr. Dauði - eða amk náð að forða mér áður en annað kom í ljós..!

Er sybbin og lykta eins og belja. Og er líka svöng en samt er ég búin að borða kvöldmat. Afleitt. Já og mér leiðist.

En spurning um að taka Albert á þetta og fara að sofa í flöffínessinu. Held það leysi öll mín vandamál. Fyrir utan beljulyktina að vísu.

L8er

L8er