lördag 4 september 2010
Framtíð og fortíð.. já og smá nútíð.
Nútíðin er vægast sagt bissí. Búin að vinna eins og vitleysingur síðustu viku og lítur út fyrir að helgin verði ekki bara sofa sofa sofa eins og ég hafði hugsað mér. Það er ný stelpa í vinnunni sem er með helgarvaktina og ég asnaðist til að segja að hún gæti hringt í mig ef hana vantaði hjálp við eitthvað. Hún vakti mig rétt rúmlega 8 í morgun útaf einhverju sem ég get ómögulega hjálpað henni með og var þar að auki búin að hringja í annan og reyndari dýralækni fyrst. Hringdi svo aftur stuttu seinna útaf öðrum erfiðum sjúklingi sem er væntanlega að koma inn og var í stresskasti yfir óréttlæti heimsins að það væru TVEIR að koma inn samtímis.. Já shit happens. Get used to it :)
En semsagt, lítur út fyrir að rólega helgin mín sé dáin.
Planið mitt fyrir daginn var að sofa, fara í klippingu og kaupa mér buxur. Og sofa. Og lesa góða bók. Og sofa.
Planið fyrir morgundaginn var að sofa. Lesa góða bók. Fara og skoða hús... og já - þá erum við komin í framtíðina! Spennó!
Framtíðin lítur þannig út að ég ætla að setjast að hérna í Övik í ca 1,5 ár í viðbót!! Ívar ætlar að sjálfsögðu að koma og vera með mér í þessu litla ævintýri og er nú þegar búinn að segja upp vinnunni í Köben. Spennandi og skerí...!
Það var semsagt auglýst "långtidsvikariat" -hvað heitir það svosem á íslensku?- langtímaafleysingastaða..? og samstarfsfólkið mitt stóð allt á bakvið mig í að sækja um þessa stöðu og mikill hiti og æsingur í fólki. Yfirmaðurinn var semsagt soldið sló að ráða mig (er sló í öllu sem hún gerir) og allt var að verða vitlaust í vinnunni... fólk farið að boða til verkfalls ef ég fengi ekki stöðuna og ég veit ekki hvað og hvað.. haha! En gott að finna að maður sé velkomin á nýja vinnustaðnum! :)
Er að vísu ekki búin að skrifa undir neina pappíra ennþá og ætlaði þar af leiðandi að bíða með að setja þetta á veraldarvefinn, en komst að því í gær að bossinn er farinn í frí út september og ég gat ekki beðið svo lengi með að segja fréttirnar!
Húsið sem ég er að fara að skoða er hjá hjúkku sem vinnur með mér, hún er með auka hús á landareigninni sinni sem er akkúrat að losna núna. Þetta er útí sveit, ca 10-15 km frá bænum. Lítið hús, 75 fermetrar, byggt 98. Þau eru með hesthús þar sem við ívar gætum fengið að vera með hesta og snjósleðaleiðir rétt við húsið... næææs :)
Þetta verður óneitanlega töluvert öðruvísi líf en í Köben og ég á örugglega eftir að sakna stórborgarlífsins annað slagið, en hérna eru hins vegar miklir möguleikar á útivist, skíðum, veiðum, hestamennsku, snjósleðaferðum osfrv! Þetta verður vonandi gott ævintýri! Og ef ekki þá er þetta hvort sem er bara tímabundið ;)
Fortíðin... Í gær kvöddum við gamlan og góðan vin, Prinsinn hennar Þóru. Hann var felldur og grafinn í Hólshúsum. Það vakti upp margar minningar síðustu 10 ára og þá sérstaklega eldri minningar. Árin þegar við stigum okkar fyrstu skref í hestamennskunni. Vissum ekkert og kunnum ekkert, en elskuðum hesta. Riðum út eins og vitleysingar, helst á stökki því það var skemmtilegast. Reyndum að læra, en það gat verið erfitt. "Taktu fastar í tauminn til að láta hann tölta" má túlka á marga vegu; Þóra kreisti og kreisti tauminn þar til hnúarnir hvítnuðu en aldrei tölti hesturinn..!
Það rifjast upp sumrin sem við unnum við reiðskólann, gamla góða reiðskólagengið.. ég, Þóra, Sunna og hestarnir okkar, þau Gola, Prins, Rökkvi, og seinna Vinur og Hvítusunna ásamt ýmsum öðrum utanaðkomandi hestum sem slógust í hópinn, t.d. "Teppið" :) Mínírekstrarnir okkar þar sem allir hestarnir hlupu í mismunandi áttir og tók okkur marga klukkutíma að safna þeim saman aftur og komast af stað - ef við þá komumst af stað yfirhöfuð! Góðar stundir í sólskini útá túni, grillaðar samlokur og kakó með nokkrum kaffikornum útí. Berbaksreiðtúrar, sundreiðar með hinum og þessum skakkaföllum (!), kappreiðar, stökk yfir skurði, Baugaselsferðir, Landsmót, Einarsstaðir; í minningunni voru þessi ár svo áhyggjulaus og skemmtileg, sól og sumar, líf og fjör. Auðvitað voru þau það alls ekki alltaf, en þetta eru samt með mínum uppáhalds minningum. Og í gegnum öll þessi ár var Prins með. Það er skrítin tilfinning að hafa kvatt þennan gamla höfðingja þó að maður hafi vitað að þessi dagur kæmi. En ég er allavega þakklát fyrir að við skyldum hafa fengið að kynnast þessum stolta snillingi, hann hefur svo sannarlega gefið lífinu lit í gegnum þessi 10 ár!
Prenumerera på:
Kommentarer till inlägget (Atom)
Ójú það er svo sannarlega eintómt sólskin í þessum minningum! Sammála því að þessi ár eru í algjöru uppáhaldi.
SvaraRaderaEn sem betur fer er nú framtíðin spennandi líka :) hlakka til að fylgjast með ykkur í "nýja lífinu".
Skemmtilegt og fallegt blogg!